Íslenski boltinn

Félög á Íslandi samið um að óléttar konur fái ekki greitt

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir varð í tvígang Evrópumeistari með Lyon. Sigur hennar í máli gegn félaginu hefur áhrif fyrir knattspyrnukonur um allan heim.
Sara Björk Gunnarsdóttir varð í tvígang Evrópumeistari með Lyon. Sigur hennar í máli gegn félaginu hefur áhrif fyrir knattspyrnukonur um allan heim. Getty/Johannes Simon

Í ljósi áfangans sem Sara Björk Gunnarsdóttir náði með því að vinna mál gegn franska félaginu Lyon, vegna vangoldinna launa þegar hún var barnshafandi, hafa Leikmannasamtök Íslands bent á að dæmi séu um að íslensk íþróttafélög neiti að greiða laun til óléttra leikmanna.

Leikmannasamtökin greindu frá því á Twitter að dæmi væru um að íslensk félög settu það sérstaklega inn í samninga við leikmenn að verði leikmaður þungaður falli greiðslur til hans niður á samningstímanum. Samtökin birtu skjáskot af slíku samningsákvæði sem sjá má hér að neðan.

Dæmi um samning sem íslenskt félag hefur boðið leikmanni.@Leikmannasamtok

Leikmannasamtökin segja að í þessu ljósi sé sigur Söru Bjarkar því ekki síður mikill sigur fyrir íslenskar stelpur.

Í byrjun vikunnar svipti Sara hulunni af því sem gerðist eftir að hún varð fyrsti leikmaður í sögu Lyon, eins allra stærsta ef ekki stærsta félagsins í sögu knattspyrnu kvenna, til að verða ólétt.

Sara greindi frá því að Lyon hefði ekki borgað henni umsamin laun eftir að hún varð ólétt og að framkvæmdastjóri félagsins hefði sagt að færi hún með málið til FIFA ætti hún sér enga framtíð hjá félaginu.

Sara barðist hins vegar fyrir sínum rétti og uppskar tímamótasigur varðandi rétt leikmanna til fæðingarorlofs, og margar af þekktustu knattspyrnustjörnum heims hafa lýst yfir ánægju með hana og vonbrigðum yfir framgöngu Lyon í málinu.

Upphæðin sem Lyon hugðist spara sér nemur um 12,7 milljónum króna sem Söru, sem nú spilar með Juventus á Ítalíu, hafa nú verið dæmdar, auk vaxta.

FIFA setti reglur varðandi ólétta leikmenn, sem tóku gildi í janúar í fyrra, þar sem segir að leikmenn eigi rétt á fullum greiðslum á meðgöngu. Reglurnar voru settar eftir þrýsting frá alþjóða leikmannasamtökunum, FIFPRO, sem Leikmannasamtök Íslands eru hluti af.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×