Enski boltinn

Evrópu­meistarinn tók sjálf saman töl­fræði um sig sjálfa og fékk nýjan samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Greenwood sést hér í leik með Manchester City liðinu.
Alex Greenwood sést hér í leik með Manchester City liðinu. Getty/Gareth Copley

Alex Greenwood er mikilvægur leikmaður hjá knattspyrnuliði Manchester City og hún passaði upp á það að forráðamenn félagsins gerðu sér örugglega grein fyrir því.

Greenwood er 29 ára varnarmaður sem var að renna út á samningi hjá City liðinu þar sem hún hafði spilað frá árinu 2020. Hún var í Evrópumeistaraliði Englendinga síðasta sumar og hefur spilað 49 landsleiki fyrir England.

The Athletic segir frá því hvernig leikmaðurinn hafi tekið af skarið í að sjá til þess að yfirmenn hennar hjá Manchester City væru með allar nauðsynlega upplýsingar.

Þetta var kannski ekki spurning um að fá nýjan samning eða ekki heldur miklu frekar spurning um að fá betri samning hjá því félagi sem hún vildi spila með.

The Athletic segir frá því að Greenwood lét taka saman úttekt um sig sjálfa hjá tölfræðigreiningafyrirtækinu Analytics FC þar sem skoðað var áhrif hennar á lið Manchester City.

Analytics FC bar saman 2019-20 tímabilið, þegar Greenwood var ekki komin til liðsins, og 2020-21 tímabilið sem var hennar fyrst hjá City.

Önnur félög í Evrópu höfðu áhuga á Greenwood en hún vildi halda áfram hjá Manchester City. Hún vildi hins vegar fá samning í takt við framlag hennar til liðsins.

Þessi tölfræðiúttekt sýndi það svart á hvítu hversu mikilvæg Greenwood væri fyrir City liðið og fékk hún í kjölfarið nýjan þriggja ára samning hjá Manchester City.

Greenwood er líklega ein af fáum leikmönnum sem hefur náð að spila með Evertin, Liverpool, Manchester United og Manchester City á ferlinum en hún snéri aftur til Englands eftir eitt tímabil með Olympique Lyon í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×