Erlent

Fékk sæti í tveimur þingnefndum þrátt fyrir lygar

Samúel Karl Ólason skrifar
George Santos hefur verið staðinn að umfangsmiklum lygum um feril sinn og mörgum spurningum er ósvarað um fjármál hans.
George Santos hefur verið staðinn að umfangsmiklum lygum um feril sinn og mörgum spurningum er ósvarað um fjármál hans. EPA/WILL OLIVER

Bandaríski þingmaðurinn George Santos fékk sæti í tveimur nefndum fulltrúadeildarinnar í gær. Það er þrátt fyrir að margir Repúblikanar kalli eftir afsögn hans vegna umfangsmikilla lyga fyrir kosningarnar og að kallað sé eftir því að hann verði rannsakaður vegna lyganna og fjármála hans.

Santos mun sitja í vísinda-, geim-, og tækninefnd fulltrúadeildarinnar og nefnd um smá og meðalstór fyrirtæki.

Í frétt New York Times segir að Santos hafi sóst eftir sæti í mikilvægari nefndum en þessum tveimur, utanríkismála- og fjármálanefnd fulltrúadeildarinnar.

Þær tvær nefndir sem hann fékk svo sæti í þykja ekki eins mikilvægar en það að hann hafi verið skipaður í þær þykir til marks um að leiðtogar Repúblikanaflokksins, sem stjórna fulltrúadeildinni með naumum meirihluta, ætli ekki að taka mál þingmannsins hörðum tökum.

Kevin McCarthy, forseti fulltrúadeildarinnar, hefur ekki viljað gagnrýna Santos og hefur ekki tekið undir áköll meðlima flokksins úr kjördæmi þingmannsins um að hann eigi að segja af sér. Þess í stað hefur McCarthy lagt til að siðferðisnefnd fulltrúadeildarinnar rannsaki Santos.

Sjá einnig: Krefjast afsagnar lygarans á þingi

Minnst tveir þingmenn Demókrataflokksins hafa einnig kallað eftir slíkri rannsókn en í frétt NYT segir að sú nefnd hafi lengi verið gagnrýnd fyrir mikinn hægagang.

Eins og áður segir hefur Santos reynst marglyginn um sögu sína, afrek og fjölskyldu. Þá hafa hlutlaus eftirlitssamtök lagt fram kvörtun gegn honum til Alríkis-kjörstjórnar Bandaríkjanna (FEC) en samtökin segja að hann hafi líklega brotið kosningalög.

Sjá einnig: Lygarinn á þingi sakaður um að brjóta kosningalög

Þá eru saksóknarar einnig með Santos til rannsóknar.

McCarthy sagði fyrr í vikunni að hann hefði alltaf haft spurningar um feril Santos og sömuleiðis að hann hefði rætt við þingmanninn um það að einn af aðstoðarmönnum hans hefði þóst vera starfsmannastjóri McCarthy við fjáröflun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×