Fjallað var um rannsóknina í fréttum Stöðvar 2 en hún beindist að hvítabjörnum á tiltölulega íslitlu svæði milli Prins Kristjánssunds við suðurodda Grænlands og bæjarins Tasiilaq og voru þeir bornir saman við birni sem lifa norðar með austurströnd Grænlands. Niðurstöðurnar birtust í vísindaritinu Science á nýliðnu ári.

Kristin L. Laidre, sjávarlíffræðingur við Heimskautastofnun Washington-háskóla í Seattle, fór fyrir rannsókninni sem tuttugu vísindamenn frá fjölda háskóla og vísindastofnana stóðu að í samstarfi við Auðlindastofnun Grænlands.
Vísindamennirnir segja hvítabirni eina helstu táknmynd hugsanlegra fórnarlamba loftslagsbreytinga. Þeir þurfi hafís til að veiða seli, mikilvægustu fæðutegundina, og því muni minnkandi hafís mjög líklega hafa mikil áhrif á lífsskilyrði þeirra.

Laidre og samstarfsmenn hennar segja að í fyrsta sinn hafi tekist að lýsa sérstökum undirstofni hvítabjarna sem sé erfðafræðilega frábrugðnari nítján öðrum stofnun hvítabjarna og sé minna háður hafís. Þarna séu um tvöhundruð dýr sem lifi á svæði sem afmarkað sé af bröttum fjöllum Grænlands og úthafinu. Ólíkt öðrum hvítabjörnum, sem ferðist langar leiðir í fæðuleit, haldi þessir birnir sig við sitt heimasvæði.
„Við vildum rannsaka þetta svæði vegna þess að vissum ekki mikið um hvítabirni á Suðaustur-Grænlandi. Við áttum hins vegar alls ekki von á því að finna þarna nýjan undirstofn,“ segir Kristin Laidre í viðtali á vefsíðu Washington-háskóla en hún vill skilgreina hann sem tuttugasta undirstofn hvítabjarna.
„Við vissum að það væru birnir þarna út frá sögulegum heimildum og vitneskju frumbyggja. Við vissum bara ekki hversu sérstakir þeir eru.“

Til þessa hefur almennt verið talið að hvítabirnir þoli vart meira en eitthundrað daga tímabil án hafíss. Eftir það fari hungrið að sverfa að þegar þeir geti ekki veitt hina fituríku seli.
Birnirnir þarna hafa hins vegar aðlagað sig lífi í fjörðum sem eru lausir við hafís stóran hluta ársins, við aðstæður með óstöðugu veðri, hlýindum og með hafís að jafnaði aðeins fáa mánuði ársins, frá febrúar og fram í maí. Segja vísindamennirnir að við veiðar nýti þeir sér meðal annars ferskvatnsís sem brotni af jökulsporðum í fjarðabotnum en taka fram að meiri rannsóknir þurfi á lífsháttum þeirra.

Þeir kalla eftir sérstakri verndun þessa undirstofns enda geti hann veitt innsýn í það hvernig hvítabirnir geti lifað af loftslagsbreytingar.
Í viðtali við grænlenska fréttamiðilinn Sermitsiaq segir einn rannsakenda, Erik W. Born, að þessi litli suðaustur-grænlenski stofn hafi einhver gen sem þyrfti að varðveita til framtíðar. Þau gen gætu skipt miklu máli fyrir afkomu allra hvítabjarnastofna. Þarna sé hópur dýra sem erfðafræðilega og hegðunarlega hafi lagað sig að hlýrra loftslagi með minni hafís.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: