Enski boltinn

Fyrsta stefnumót Keane-hjónanna var martröð líkast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Theresa og Roy Keane hafa verið gift í aldarfjórðung.
Theresa og Roy Keane hafa verið gift í aldarfjórðung. getty/John Peters

Roy Keane segir að fyrsta stefnumót hans og eiginkonu hans, Theresu, hafi verið martröð líkast.

Keane-hjónin hafa verið gift síðan 1997 og eiga fimm börn og tvö barnabörn. En eftir fyrsta stefnumótið benti ekkert til þess að niðurstaðan yrði farsælt hjónaband.

Keane var gestur í þættinum The Tommy Tiernan Show þar sem hann sagði frá fyrsta stefnumóti þeirra Theresu. Það var í upphafi 10. áratugarins þegar Keane lék með Nottingham Forest.

„Það fór mjög illa. Við hittumst. Ég sótti hana á City Ground [heimavöllur Forest] og við keyrðum af stað,“ sagði Keane.

„Ég spurði hana hvort hún vildi fara í bíó. Þá gætum við allavega horft á myndina og ekki þurft að tala mikið og hún sagði nei. Hún sagðist hafa farið með vinum í gær en ég sagði að það væru aðrar myndir í boði. Ég spurði hana síðan hvort hún vildi fá sér drykk en hún sagði líka nei.“

Keane var forviða og spurði Theresu hvað hún vildi þá gera, fyrst hún vildi ekki fara í bíó eða fá sér drykk.

„Hún fór út úr bílnum. Ég spurði hvort við myndum sjást í næstu viku en hún sagði ég held ekki og skellti hurðinni. Þetta var fyrsta stefnumótið okkar og við erum enn gift,“ sagði Keane en ljóst er að fall hefur verið fararheill í þessu tilfelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×