Enski boltinn

Stjóri Benfica sakar Chelsea um vanvirðingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Enzo Fernández er afar eftirsóttur.
Enzo Fernández er afar eftirsóttur. getty/Diogo Cardoso

Roger Schmidt, knattspyrnustjóri Benfica, hefur gagnrýnt Chelsea fyrir að falast eftir argentínska heimsmeistaranum Enzo Fernández og sakar enska félagið um vanvirðingu.

Fernández var valinn besti ungi leikmaður HM í Katar þar sem Argentína stóð uppi sem sigurvegari. Þessi 21 árs miðjumaður er afar eftirsóttur og Chelsea þykir líklegt til að krækja í kappann sem er með 106 milljóna punda riftunarákvæði í samningi sínum við Benfica.

Schmidt er þó ekki sáttur með hvernig Chelsea hefur borið sig að í tilraunum sínum til að klófesta Fernández.

„Það sem félagið sem vill fá Enzo er að gera er vanvirðing gagnvart okkur öllum, gagnvart Benfica, og ég get ekki samþykkt það,“ sagði Schmidt.

„Að gera leikmanninn brjálaðan og þykjast svo geta borgað riftunarákvæðið og vilja svo semja er ekki í anda góðra samskipta milli félaga sem vilja kannski ræða um leikmann.“

Schmidt segir að afstaða Benfica í þessu máli sé mjög skýr en gerir sér þó grein fyrir því að Fernández gæti yfirgefið félagið áður en langt um líður. 

„Við viljum ekki selja Enzo. Enginn hjá félaginu vill það. Allir vita af riftunarákvæðinu og ef hann vill fara og einhver borgar þessa upphæð getum við ekki meinað honum að fara og kannski missum við leikmanninn.“

Benfica keypti Fernández frá River Plate síðasta sumar. Hann hefur leikið 25 leiki með liðinu á þessu tímabili og skorað tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×