Enski boltinn

Ó­sáttur Klopp segir Brent­ford „beygja reglurnar“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp var ekki sáttur að leik loknum.
Klopp var ekki sáttur að leik loknum. Ryan Pierse/Getty Images

Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, var verulega ósáttur með 3-1 tap sinna manna gegn Brentford í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni. Þó myndbandsdómari leiksins hafi tvívegis tekið mark af Brentford í kvöld sá Klopp sig samt sem áður tilneyddan til að gagnrýna dómgæsluna og leikstíl Brentford að leik loknum.

Liverpool var 2-0 undir í hálfleik þó svo að Brentford hefði komið boltanum í netið fjórum sinnum. Tvívegis greip varsjáin inn í. Í síðari hálfleik skoraði Liverpool tvö mörk en annað var dæmt af. Brentford skoraði svo, vann 3-1 sigur og Klopp mætti pirraður í viðtal.

„Þetta var villtur leikur, alveg eins og Brentford vill. Ég er ekki viss um að það sé hægt að stýra leik gegn þeim frá upphafi til enda. Þeir beygja reglurnar á ákveðnum augnablikum,“ sagði Klopp í viðtali eftir leik.

„Auðvitað er ég óánægður en eins og ég sagði, þeir beygja reglurnar. Þeir virkilega ýta, þeir virkilega toga. Dómararnir … það er augljóslega það sem má,“ sagði Klopp jafnframt en hann var sérstaklega ósáttur með þriðja mark Brentford þegar Bryan Mbeumo hafði betur gegn Ibrahima Konaté í öxl í öxl einvígi.

Föst leikatriði fóru illa með Liverpool í dag.

„Þeir spila á brúninni í föstum leikatriðum. Við gerðum okkar besta til að berjast á móti en þeir vildu þetta meira en við í dag.“

Liverpool er eftir tap kvöldsins í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 28 stig að loknum 17 umferðum, fjórum stigum á eftir Manchester United sem á leik til góða í 4. sæti. Brentford er í 7. sæti með 26 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×