Brent­ford stöðvaði sigur­göngu Liver­pool

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eðlilega var fagnað í leikslok.
Eðlilega var fagnað í leikslok. Clive Rose/Getty Images

Brentford vann magnaðan 3-1 sigur á Liverpool í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Fyrir leik hafði Liverpool unnið fjóra deildarleiki í röð. Sigurinn er enn merkilegri fyrir þær sakir að Ivan Toney, markahæsti leikmaður Brentford á leiktíðinni, var fjarri góðu gamni. Liðið gæti þurft að venjast því en talið er að hann eigi yfir höfði sér þungt bann vegna brota á veðmálareglum ensku úrvalsdeildarinnar.

Leikur Brentford og Liverpool byrjaði af krafti og fékk Darwin Núñez gott færi en Ben Mee, miðvörður heimaliðsins, varði á línu. Eftir það kom í ljós að Liverpool réð ekkert við föst leikatriði heimaliðsins, þá sérstaklega hornspyrnur þess.

Eftir eina slíka komst Brentford yfir en boltinn fór þá af lærinu á Ibrahima Konaté, miðverði Liverpool, og þaðan í netið. Markið var skoðað í dágóða stund og reynt að athuga hvort boltinn hefði farið í hendina á Mee í þann mund sem hann fór í lærið á Konaté. Svo reyndist ekki og markið stóð.

David Raya, markvörður Brentford varði svo vel frá bakverðinum Konstantinos Tsimikas áður en heimamenn tvöfölduðu forystu sína, þrívegis. Á 27. mínútu var mark dæmt af Brentford þar sem Yoane Wissa var rangstæður eftir hornspyrnu. Það var svo þegar rúmlega fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik sem Wissa átti skot sem fór af Konaté og Mee áður en það fór í netið.

Mee var hins vegar rangstæður og eftir að markið var skoðað vel og lengi af myndbandsdómara leiksins var það dæmt af. Aðeins 30 sekúndum síðar skoraði Wissa með góðum skalla, það leit út fyrir að Alisson hefði náð að koma í veg fyrir markið en boltinn fór allur yfir línuna. Það tók þrjár tilraunir en loks hafði Brentford tvöfaldað forystuna og staðan 2-0 í hálfleik.

Strax í upphaf síðari hálfleiks kom Núñez boltanum í netið en hann var rangstæður í aðdraganda marksins og eftir enn eina langa athugun myndbandsdómara var markið dæmt af. Örskömmu síðar skallaði Alex Oxlade-Chamberlain boltann í netið eftir stoðsendingu Trent Alexander-Arnold. Gestirnir gerðu hvað þeir gátu til að jafna metin en það gekk ekki og á 84. mínútu gulltryggði Bryan Mbeumo sigur heimamanna, lokatölur 3-1.

Liverpool er eftir tap kvöldsins í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 28 stig að loknum 17 umferðum, fjórum stigum á eftir Manchester United sem á leik til góða í 4. sæti. Brentford er í 7. sæti með 26 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira