Erlent

Sagðir hafa fellt hundruð Rússa í einni árás

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínumenn gerðu árásina með HIMARS-eldflaugakerfum sem þeir fengu frá Bandaríkjunum.
Úkraínumenn gerðu árásina með HIMARS-eldflaugakerfum sem þeir fengu frá Bandaríkjunum. EPA/HANNIBAL HANSCHKE

Úkraínumenn eru sagðir hafa fellt hundruð rússneskra hermanna í einni árás í austurhluta Úkraínu á nýársnótt. Fregnir hafa borist af því að flugskeytum hafi verið skotið að skóla í bænum Makívka því þar hafi fjölmargir hermenn verið komnir saman.

Skólinn er nú rústir einar en skotfæri munu einnig hafa verið geymd í kjallara skólans.

Yfirvöld í Rússlandi og á hernumdum svæðum í Úkraínu hafa ekkert sagt um árásina en mikið hefur verið rætt um hana meðal rússneskra herbloggara. Þeir eru mjög virkir í Rússlandi og hafa margir hverjir góða heimildarmenn í rússneska hernum.

Þeir hafa heilt yfir fordæmt atvikið og gagnrýnt leiðtoga hersins alvarlega fyrir að smala svo mörgum hermönnum saman á einn stað. Einnig hefur það verið harðlega gagnrýnt að skotfæri hafi verið geymd á sama stað.

Ekkert virðist hafa verið fjallað um árásina í ríkismiðlum Rússlands. Miðillinn Moscow Times hefur þó fjallað um árásina.

Uppfært 13:30: Fréttaveitan RIA, sem er í eigu rússneska ríkisins, segir minnst 63 hermenn hafa fallið í árásinni. Herbloggararnir í Rybar segja að um sex hundruð hermenn hafi verið í skólanum.

Myndbönd af rústum skólans hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Úkraínumenn hafa tjáð sig lítillega um árásina og segja allt að fjögur hundruð Rússa hafa fallið í henni og um þrjú hundruð hafi særst. Rússneskir herbloggarar hafa slegið á svipaða strengi og segja að enn sé mikið af líkum í rústum skólans.

Igor Girkin, sem var áður einn af leiðtogum aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu, segir að margra sé saknað. Líklega séu mörg hundruð menn fallnir.

Varnarmálaráðuneyti ríkisins birti myndband af HIMARS-eldflaugakerfi að morgni nýársdags. Með myndbandinu fylgdi textinn „Óvænt ánægja!“ eða „Surprise“.

Útlit er fyrir að um kvaðmenn hafi verið að ræða, það er að segja menn sem skikkaðir hafa verið til herþjónustu, en mennirnir eru sagðir koma frá Saratov-héraði í Rússlandi.

Sérfræðingur sem sérhæfir sig í málefnum rússneska hersins segir að eitt þeirra vandamála sem notkun kvaðmanna feli í sér sé að ekki sé hægt að skipta þeim upp í smærri hópa. Samheldni smærri eininga sé lítil vegna skorts á leiðtogum og þjálfun.


Tengdar fréttir

Rússar héldu árásum sínum áfram í nótt

Loftvarnaflautur hljómuðu í Kænugarði í gærkvöldi og nótt en samkvæmt heimildarmönnum innan úkraínska hersins skutu loftvarnakerfi niður um það bil tuttugu skotmörk, meðal annars dróna. 

Fyrstu á­rásirnar þegar hálf­tími var liðinn af nýja árinu

Rússar héldu árásum sínum áfram á Úkraínu í dag og var fyrstu flugskeytunum skotið á höfuðborgina Kænugarð þegar einungis um hálftími var liðinn af nýja árinu. Skotið var á byggingar í tveimur hverfum höfuðborgarinnar og er að minnsta kosti einn látinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×