Enski boltinn

Pal­hinha hetja Ful­ham | Sigur­ganga New­cast­le á enda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fulham vann góðan sigur í dag.
Fulham vann góðan sigur í dag. John Walton/Getty Images

Fimm af sex leikjum dagsins í ensku úrvalsdeildinni er nú lokið. Crystal Palace vann góðan útisigur á Bournemouth, Fulham vann dramatískan 2-1 sigur á Southampton. Þá gerði Newcastle United markalaust jafntefli við Leeds United. Þar á undan hafði Manchester United unnið Úlfana en nágrannar þeirra í City náðu aðeins jafntefli gegn Everton.

Crystal Palace skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og gerði í raun út um leikinn gegn Bournemouth. Jordan Ayew skoraði á 19. mínútu og Eberechi Eze skoraði á 36. mínútu. Michael Olise lagði upp bæði mörkin. Staðan 0-2 í hálfleik sem og þegar flautað var til leiksloka. Palace er í 11. sæti með 22 stig eftir 16 leiki á meðan Bournemouth er í 15. sæti með 16 stig.

Fulham vann dramatískan 2-1 sigur á Southampton í Lundúnum. James Ward-Prowse varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í fyrri hálfleik en skoraði í rétt mark í síðari hálfleik og stefndi allt í 1-1 jafntefli. Joao Palhinha var ekki sama sinnis og tryggði Fulham 2-1 sigur með marki undir lok venjulegs leiktíma.

Í uppbótartíma fékk Aleksandar Mitrović tækifæri til að endanlega tryggja sigurinn en Gavin Bazunu varði þá vítaspyrnu hans. Sigurinn lyftir Fulham upp í 7. sæti með 25 stig að loknum 17 leikjum. Southampton er á botninum með 12 stig að loknum 17 leikjum.

Þá tókst Newcastle og Leeds ekki að skora svo leiknum lauk með markalausu jafntefli. Newcastle hafði unnið sex deildarleiki í röð fyrir leik dagsins. 

Eftir leiki dagsins er Newcastle United í 3. sæti með 34 stig að loknum 17 leikjum á meðan Leeds er í 14. sæti með 16 stig að loknum 16 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×