Erlent

Sér­fræðingar eru uggandi vegna af­léttinga tak­markana í Kína

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Japanir hyggjast taka upp reglur um sóttkví ferðalanga frá Kína.
Japanir hyggjast taka upp reglur um sóttkví ferðalanga frá Kína. AP/Andy Wong

Sérfræðingar eru nú uggandi vegna fyrirætlana stjórnvalda í Kína að aflétta verulega ferðatakmörkunum og reglum um sóttkví ferðalanga, þar sem lítið er vitað um stöðu kórónuveirufaraldursins í landinu.

Frá og með 8. janúar verða þeir sem heimsækja Kína ekki lengur skikkaðir í sóttkví.

Sóttvarnalæknirinn og prófessorinn Dominic Dwyer segir fregnirnar áhyggjuefni þar sem leyndarhyggja Kínverja hafi leitt til þess að ekki er vitað hvaða afbrigði SARS-CoV-2 hafi knúið faraldurinn í Kína né heldur hvort þau séu næm fyrir þeim bóluefnum sem hafa verið í notkun.

Bólusetningar hafa ekki náð jafn mikilli útbreiðslu í Kína eins og víða annars staðar, ekki síst meðal eldra fólks. Þá eru stjórnvöld hætt að gefa út smittölur eftir að hafa fallið skyndilega frá stefnumörkun sinni um að halda Covid-smitum í núlli.

Breskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í líkönum í heilbrigðismálum segist gera ráð fyrir að um milljón manns séu smitaðir í Kína og að fleiri en 5.000 greinist á degi hverjum.

Sérfræðingar segja raunverulegan fjölda mögulega töluvert meiri og að læknar í Kína hafi greint frá gríðarlegri bylgju greininga og dauðsfalla. Læknirinn Howard Bernstein, sem starfar í Peking, sagði í samtali við Reuters að sjúklingar væru að koma veikari inn á spítala og að þeir væru fleiri en áður.

Japanir hafa gripið til aðgerða vegna fyrirætlana Kínverja og hyggjast meðal annars skikka ferðalanga frá Kína til að sæta sóttkví. Þá verður fjöldi ferðamanna frá landinu takmarkaður. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Ástralíu eru með málið til skoðunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×