Erlent

Selenskí segir átökin í Donbas „erfið og sársaukafull“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Liðsmenn Azov-hersveitarinnar komu saman fyrir jól til að minnast fallinna félaga.
Liðsmenn Azov-hersveitarinnar komu saman fyrir jól til að minnast fallinna félaga. AP/Arsen Petrov

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir átökin sem nú standa yfir í Donbas „erfið og sársaukafull“. Ástandið á framlínunni; í Bakhmut, Kreminna og víðar, krefðist styrks og einbeitingar, þar sem Rússar beittu öllum kröftum í að sækja fram.

Pavlo Kyrylenko, ríkisstjóri í Donetsk, sagði í gær að meira en 60 prósent allra innviða í Bakhmut hefðu verið skemmd eða eyðilögð. Borgin sætti stöðugum árásum Rússa, sem viðhefði nú þá aðferðafræði að skilja eftir sig sviðna jörð.

Úkraínsk hermálayfirvöld segja tugir bæja í Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizhzhia hafa sætt skotárásum síðustu daga. Um er að ræða héruð sem Rússar „innlimuðu“ fyrr á árinu, án þess að hafa þau fullkomlega á valdi sínu.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sakaði Bandaríkin og bandamenn þeirra innan Atlantshafsbandalagsins í gær um að vilja sigra Rússa á vígvellinum, með það að markmiði að tortíma Rússlandi.

Þá kallaði hann eftir því í viðtali við ríkisfréttastofuna Tass að Vesturlönd sýndu sjálfstjórn hvað varðar notkun kjarnorkuvopna.

Þess þarf vart að geta að það voru Rússar sem réðust inn í Úkraínu og stofnuðu þannig til átaka og að það eru þeir en ekki stjórnvöld á Vesturlöndum sem hafa haft í hótunum um notkun kjarnorkuvopna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×