Fótbolti

Fjöldi stór­stjarna getur samið við ný lið í janúar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir þrír renna út á samning næsta sumar.
Þessir þrír renna út á samning næsta sumar. Getty Images

BT Sport hefur tekið saman hvaða knattspyrnumenn verða samningslausir næsta sumar því það þýðir að í janúar mega þeir hefja samningaviðræður við erlend félög. Á listanum má finna leikmenn á borð við Lionel Messi, Jorginho, Milan Škriniar og Karim Benzema.

Heimsmeistarinn Messi á ef til vill ekki heima á listanum þar sem hann ku vera búinn að samþykkja nýjan samning í París. Það stefnir því allt í að hann verði áfram í herbúðum París Saint-Germain.

Það verður að teljast ólíklegt að hinn 35 ára gamli Benzema skipti um lið næsta sumar en hann á þó enn eftir að semja við Real Madríd á nýjan leik. Framherjinn hefur sjaldan spilað betur en missti af HM vegna meiðsla og er spurning hvort það hefur áhrif á samningsstöðuna.

Slóvakinn Škriniar, miðvörður Inter Milan, er einkar eftirsóttur og virðist sem hann muni yfirgefa Mílanó-borg í sumar. Talið er að enska úrvalsdeildin sé hans næsti áfangastaður.

Samningur hins ítalska Jorginho við Chelsea rennur út í sumar og sama má segja um samherja hans N‘Golo Kanté. Sá er meiddur núna og óvíst hvort hann spili meira á leiktíðinni.

Aðrir leikmenn á listanum eru Youri Tielemans [Leicester City], Wilfried Zaha [Crystal Palace], İlkay Gündoğan [Manchester City], Roberto Firmino [Liverpool], Youssoufa Moukoko [Borussia Dortmund], Thomas Lemar [Atlético Madríd] og Leandro Trossard [Brighton & Hove Albion].




Fleiri fréttir

Sjá meira


×