Fótbolti

Kanté verður mögulega frá keppni fram í mars og gæti farið frítt í sumar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
N'Golo Kanté hefur verið frá keppni frá því í ágúst.
N'Golo Kanté hefur verið frá keppni frá því í ágúst. Mike Hewitt/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea þarf líklega að spjara sig án N'Golo Kanté næstu þrjá mánuðina. Graham Potter, knattspyrnustjóri liðsins, staðfesti á blaðamannafundi í gær að miðjumaðurinn myndi líklega ekki jafna sig af meiðslum sínum fyrr en í mars á næsta ári.

Kanté hefur verið að glíma við meiðsli aftan í læri nánast allt tímabilið, en hann lék síðast með Chelsea í ágúst þegar liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Tottenham í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni.

Þessi 31 árs miðjumaður var því ekki hluti af franska landsliðshópnum á HM í Katar, en hann var í lykilhlutverki með liðinu sem tryggði sér heimsmeistaratitilinn árið 2018.

Þá hefur hann einnig verið í lykilhlutverki hjá Chelsea síðan hann kom til liðsins frá Leicester árið 2016. Hann hefur leikið 185 deildarleiki fyrir Chelsea og á að baki 53 leiki fyrir franska landsliðið.

Þá er Kanté á seinasta samningsári sínu hjá Lundúnaliðinu. Lítið sem ekkert er að frétta af nýjum samningi leikmannsins við félagið og hann gæti því farið frítt næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×