Fótbolti

Messi verður á­fram í París

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimsmeistaranum líður vel í Frakklandi.
Heimsmeistaranum líður vel í Frakklandi. Quality Sport Images/Getty Images

Það stefnir allt í að heimsmeistarinn Lionel Messi framlengi samning sinn við París Saint-Germain. Núverandi samningur hans rennur út næsta sumar.

Messi hafði verið orðaður við Inter Miami, liðið sem David Beckham á hlut í. Talið var að MLS-deildin væri að reyna fá Messi í sínar raðir og stefndi á að gera hann að andliti heimsmeistaramótsins sem fram fer í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó sumarið 2026.

Það gæti enn gerst en nú bendir allt til þess að hinn 35 ára gamli Messi verði í París til ársins 2024. Guillem Balague, blaðamaður með einstaklega góð tengsl þegar kemur að Barcelona og Messi, hefur staðfest að Messi hafi í grunninn samþykkt tilboð Parísarliðsins.

Enn á eftir að fara yfir smáa letrið og setja blek á blað. Verður það eflaust gert þegar Messi skilar sér aftur til Parísar en hann hefur eytt undanförnum dögum að fagna sigri sínum á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×