Erlent

Weinstein dæmdur fyrir aðra nauðgun

Atli Ísleifsson skrifar
Harvey Weinstein var dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir nauðgun í New York árið 2020.
Harvey Weinstein var dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir nauðgun í New York árið 2020. EPA

Kviðdómur í Los Angeles í Bandaríkjunum hefur fundið kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein sekan af ákæru um að hafa nauðgað konu.

Réttarhöld í málinu hafa staðið í tvo mánuði og sögðu saksóknarar að Weinstein hefði beitt áhrifum sínum til að koma á einkafundum með konum áður en hann réðst á þær.

Hinn sjötugi Weinstein á yfir höfði sér allt að 24 ára fangelsi en dómari á enn eftir að tilkynna um refsingu yfir Weinstein.

Weinstein afplánar nú þegar 23 ára fangelsisdóm eftir að hafa verið dæmdur fyrir nauðgun og kynferðisbrot í New York fyrir um tveimur árum.

Weinstein var ákærður fyrir að hafa brotið á fjórum konum – þriggja sem nutu nafnleyndar og svo Jennifer Siebel Newsom, eiginkonu ríkisstjóra Kaliforníu, Gavin Newsom. Réttarhöldin voru dæmd ómerk í máli þriggja kvennanna, þar með talið í máli Siebel Newsom sem sakaði hann um að hafa brotið á sér á hótelherbergi 2005, þar sem kviðdómi tókst ekki að ná saman um niðurstöðu.

Weinstein er einn þekktasti kvikmyndaframleiðandi heims, en hann stofnaði meðal annars framleiðslufyrirtækið Miramax og stóð að framleiðslu á myndum á borð við Shakespeare in Love og Pulp Fiction.


Tengdar fréttir

Réttað yfir Weinstein vegna Óskarsmála

Byrjað verður að velja kviðdómendur fyrir réttarhöld yfir Harvey Weinstein, kvikmyndaframleiðandanum alræmda, í Los Angeles í Bandaríkjunum í dag. Weinstein er ákærður fyrir að brjóta á fimm konum, meðal annars í kringum Óskarsverðlaunahátíð fyrir níu árum.

Gæti átt 140 ár í fangelsi í vændum

Kvikmyndaframleiðandinn og Hollywood mógúllinn Harvey Weinstein er enn og aftur mættur fyrir dómara í Bandaríkjunum sakaður um kynferðisofbeldi. Weinstein gæti átt yfir höfði sér allt að 140 ára dóm en hann afplánar nú 23 ára fangelsisdóm fyrir kynferðisofbeldi og nauðgun. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×