Erlent

Sex­tíu flug­skeytum skotið á borgir Úkraínu í morguns­árið

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Sumir borgarbúar í Kænugarði leituðu skjóls á lestarstöðvum.
Sumir borgarbúar í Kænugarði leituðu skjóls á lestarstöðvum. EPA-EFE/ROMAN PILIPEY

Rússar eru sagðir hafa skotið tugum flugskeyta á borgir Úkraínu snemma í morgun. Skipulega hafi verið ráðist á innviði þjóðarinnar. Rafmagnslaust er í borgunum Kharkiv og Poltava eftir árásirnar.

Samkvæmt umfjöllun CNN lentu flugskeytin víða um land, þar á meðal í borgunum Kharkiv, Poltava, Ódessa, Zjytómýr, Sumy og Kænugarði. Viðvörunarbjöllurnar hafi hringt um allt land og fólk hvatt til þess að halda sig í öruggu skjóli. Sumir leituðu skjóls á lestarstöðvum. 

Þá eru tveir látnir og fimm særðir eftir að flugskeyti lentu á íbúðarhúsnæði í borginni Kyvyj Ríh í miðri Úkraínu. Reuters greinir frá því að talið sé að fólk sé fast undir rústum eftir sprengingarnar.

Vatnsbirgðir í höfuðborginni komu illa út úr árásinni og hefur fólk verið hvatt til þess að birgja sig upp af vatni. Þá eru almenningssamgöngur í uppnámi vegna sprenginganna.

Innviðaárásir hafa ekki verið óalgengar síðustu mánuði og virðist rafmagnsleysi vera daglegt brauð.

Á ráðstefnu til stuðnings Úkraínu í París á dögunum óskaði Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu eftir 121 milljarðs króna innviðafjárfestingu frá bandalagsþjóðum og alþjóðastofnunum. Fjárfestingunni kallaði hann meðal annars eftir vegna viðkvæmrar stöðu rafkerfis landsins. Tryggja þyrfti aðgang að hita og rafmagni fyrir erfiða veturinn fram undan.

Í fyrrradag birtist viðtal við yfirmann úkraínskra herafla, Valery Zaluzhny þar sem hann sagðist viss um að Rússar myndu gera aðra atlögu að Kænugarði. Þá sagði hann Rússa vera að byggja upp nýjan her með tvö hundruð þúsund manns sem kvaddir hafa verið í herinn á síðustu mánuðum og árásin væri líkleg til þess að á næsta ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×