Erlent

Griner sleppt úr fangelsi í skiptum fyrir alræmdan vopnasala

Samúel Karl Ólason skrifar
Brittney Griner var dæmd í níu ára fangelsi fyrir að vera með lítilvægt magn af hassolíu í fórum sínum. Viktor Bout var dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir umfangsmikla vopnasölu í tvo áratugi.
Brittney Griner var dæmd í níu ára fangelsi fyrir að vera með lítilvægt magn af hassolíu í fórum sínum. Viktor Bout var dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir umfangsmikla vopnasölu í tvo áratugi. EPA/Getty

Bandarísku körfuboltakonunni Brittney Griner hefur verið sleppt úr fangelsi í Rússlandi. Það var gert í skiptum fyrir það vopnasalann alræmda Viktor Bout sem setið hefur í fangelsi í Bandaríkjunum yrði sleppt.

Griner var dæmd í níu ára fangelsi í Rússlandi eftir að hún var handtekin á flugvelli í Moskvu í febrúar með smávægilegt magn af hassolíu í farangri sínum. Griner var þarna á leiðinni til Rússlands til að spila körfubolta en margar af stærstu körfuboltakonum heims hafa spilað í landinu til að auka tekjur sínar. Hún er einn besti miðherji heims og lykilmaður í öllum sínum liðum.

Hún var svo í síðasta mánuði flutt í alræmda fanganýlendu til að afplána dóm sinn.

Sjá einnig: Stundin runnin upp sem fólkið hennar Brittney Griner kveið svo fyrir

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Cherelle Griner, eiginkona Brittney, ræddu við hana í síma í dag.

Viðræður milli ráðamanna í Bandaríkjunum og Rússlandi um möguleg fangaskipti hafa staðið yfir um nokkurra vikna skeið. Bandaríkjamenn eru sagðir hafa viljað frelsa Griner og Paul Whelan, sem hefur einnig verið í fangelsi í Rússlandi, í skiptum fyrir Victor Bout.

Sjá einnig: Íslandsvinurinn Whelan dæmdur í sextán ára nauðungarvinnu í Rússlandi

Bout er alræmdur rússneskur vopnasali sem handtekinn var í Taílandi árið 2008. Hann hefur gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum árin og þar á meðal hefur hann verið kallaður „sölumaður dauðans“. Í um það bil tvo áratugi seldi hann vopn til alræmdra stríðsherra, hryðjuverkasamtaka uppreisnarhópa og glæpamanna í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.

Meðal viðskiptavina hans eru al-Qaeda, Talibanar og uppreisnarmenn í Rúanda.

Kvikmyndin Lord of War, með Nicholas Cage í aðalhlutverki, byggir lauslega á ævi Bouts.

Viktor Bout árið 2010.Getty/Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna

CNN segir að Rússar hafi einnig viljað fá Vadim Krasikov til Rússlands en sá er fyrrverandi ofursti í Leyniþjónustu Rússlands (FSB) og hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi í Þýskalandi fyrir að myrða téténskan uppreisnarmann í Berlín árið 2019.

Fangaskiptin sem gengu í gegn í dag snúast eingöngu um Griner og Bout.

Hvorki Whelan né Krasikov hefur verið sleppt úr fangelsi. Reuters hefur eftir lögmanni Whelans að viðræður standi enn yfir. Hann var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir njósnir árið 2020. 

Bout er þegar kominn til Rússlands, samkvæmt ríkismiðlum þar í landi.

Áhugasamir geta kynnt sér sögu Bouts hér í ítarlegri frétt 60 mínútna um hann.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×