Ríkjum ESB hefur verið gefinn frestur til júní á næsta ári til að setja ákveðna 5G tíðni til hliðar fyrir flugvélar en notaðir verða sérstakir netbeinar í flugvélum sem veita eiga farþegum aðgang að internetinu og símaþjónustu.
Lengi hafa verið uppi áhyggjur um að 5G sendingar á jörðu niðri geti haft áhrif á og truflað búnað í farþegaþotum. Mestar eru áhyggjurnar í Bandaríkjunum þar sem 5G kerfið notar sambærilega tíðni og ýmiss búnaður í flugvélum. Þar á meðal búnaður sem mælir hæð flugvéla frá jörðu.
Því hafa yfirvöld í Bandaríkjunum takmarkað það hve nærri flugvöllum samskiptafyrirtæki geti reist 5G senda.
Sjá einnig: Flugfélög vara við óreiðu vegna 5G
BBC hefur eftir sérfræðingi að þetta eigi ekki við í Evrópu. 5G í Evrópu noti aðra tíðni en kerfið í Bandaríkjunum og í Evrópu hafi rannsóknir sýnt fram á að samskiptatæknin trufli búnað flugvéla ekki.
Bandaríkjamenn ólíklegir til að vera með
Sérfræðingar í Bandaríkjunum segja ólíklegt að þar verði tekin sambærileg ákvörðun og í Evrópu. Búnaður í flugvélum verði fyrir meiri truflunum frá 5G en í Evrópu en starfsmenn flugfélaga vestanhafs hafa þó unnið að því að gera endurbætur á viðkvæmum búnaði svo hann þoli betur 5G sendingar. Þessum endurbætum á að ljúka fyrir lok næsta árs.
Einn sérfræðingur segir í samtali við Washington Post að tæknin til að gera farþegum flugvéla kleift að tala í síma sína hafi verið til staðar um árabil. Tom Wheeler, fyrrverandi yfirmaður Fjarskiptastofnunar Bandaríkjanna, sagðist hafa skoðað árið 2013 að breyta reglunum og leyfa fólki að nota síma í flugvélum.
Hann hafi hins vegar mætt mikilli mótspyrnu innan fluggeirans en sú mótspyrna hafi snúið að því að ekki var vilji til að leyfa fólki að tala í síma sína, því það gæti komið niður á flugferð annarra farþega.