Erlent

Stærsta eld­fjall jarðar byrjað að gjósa

Kjartan Kjartansson skrifar
Hraun í öskju Mauna Loa sést á vefmyndavél Jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna í nótt.
Hraun í öskju Mauna Loa sést á vefmyndavél Jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna í nótt. AP/Eldfjallaeftirlit bandarísku jarðfræðistofnunarinnar á Havaí

Eldgos hófst í Mauna Loa, stærsta virka eldfjalli jarðar, á Havaí í nótt. Hraunrennsli er enn bundið við tind fjallsins og ógnar það ekki nærliggjandi byggð.

Þetta er í fyrsta skipti sem Mauna Loa á Stóru eyju gýs í tæplega fjörutíu ár. Aska og lausagrjót hefur fallið í nágrenni tindsins en íbúar í bænum Kona geta séð glóandi hraunið á fjallinu. Engar vísbendingar eru enn um að gossprunga sé við það að myndast. Ómögulegt er sagt að spá fyrir um þróun gossins á þessari stundu.

Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna brýndi fyrir íbúum sem gætu verið í hættu af völdum hrauns fá Mauna Loa að fara yfir viðbúnað sinn, að sögn AP-fréttastofunnar. Gefin var út viðvörun vegna mögulegs öskufalls fyrir hluta eyjarinnar. Allt að sextíu millímetrar af ösku gætu safnast fyrir á sumum stöðum.

Mauna Loa er eitt fimm eldfjalla sem mynda Stóru eyju, syðstu og stærstu eyju Havaíeyjaklasans. Það trónir 4.167 metra yfir sjávarmáli og er mun stærra en Kilauea-eldfjallið sem grandaði 700 íbúðarhúsum þegar það gaus árið 2018. 

Sumar hlíðar Mauna Loa eru mun brattari en Kilauea og hraun getur því runnið mun hraðar þar. Þegar gaus í fjallinu árið 1950 rann hraunið tuttugu og fjóra kílómetra til sjávar á innan við þremur klukkustundum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×