Enski boltinn

Drakk hland í fótboltaleik og fékk síðan rauða spjaldið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Thompson átti skelfilegan dag á laugardaginn.
Tony Thompson átti skelfilegan dag á laugardaginn. Getty/Alex Pantling

Óhætt er að segja að laugardagurinn hafi verið slæmur dagur hjá enska markverðinum Tony Thompson.

Thompson var að spila með Warrington Town á móti Guiseley á laugardaginn í FA Trophy keppninni sem er bikarkeppni áhugamannaliða í Englandi.

Stuðningsmenn Guiseley gerðu honum ógeðslegan grikk sem Thompson brást skiljanlega mjög illa við.

Í leiknum tók einn stuðningsmaður Guiseley upp á því að skipta á vatnsflösku Thompson og flösku sem stuðningsmaður Guiseley hafði pissað í.

Thompson áttaði sig ekki á þessu og drakk hlandið úr flöskunni. Hann brjálaðist í kjölfarið og spreyjaði úr flöskunni yfir stuðningsmennina fyrir aftan markið hans.

Það sem hann hafði upp úr því var rauða spjaldið. Þeir sem vissu ekki hvað hafði gerst sáu bara markvörðinn allt í einu missa sig við áhorfendur.

„Í dag missti ást mína fyrir íþróttinni,“ skrifaði Tony Thompson á Twitter og birti með myndband af því þegar stuðningsmaðurinn skiptir út vatnsflöskunni fyrir flöskuna með hlandinu.

„Ég hef fengið að heyra ýmislegt á mínum ferli en þegar einhver tekur upp á því að pissa í flöskuna mína, ég drekk úr henni og er svo sagt að ég megi ekki bregðast við af því að ég er leikmaður. Þetta er klikkun. Þessi einstaklingur hefur sett mig og fjölskyldu mína í hættu og ég er orðinn veikur,“ skrifaði Tony.

Forráðamenn Guiseley sendu frá sér yfirlýsingu um að málið hafi verið kært til lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×