Erlent

Stríðsreksturinn sagður valda stórfelldri losun

Kjartan Kjartansson skrifar
Rússneskur og úkraínskur skriðdreki í Donetsk í Austur-Úkraínu.
Rússneskur og úkraínskur skriðdreki í Donetsk í Austur-Úkraínu. Vísir/EPA

Innrás Rússa í Úkraínu hefur leitt til gríðarlegrar losunar á gróðurhúsalofttegundum, að sögn fulltrúa Úkraínu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þeir segjast safna upplýsingum um „umhverfisglæpi“ Rússa.

Ruslan Strilets, umhverfisráðherra Úkraínu, fullyrðir að stríðsreksturinn hafi leitt beint til losunar á 33 milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum. Breska ríkisútvarpið BBC segir það jafnast á við losun um sextán milljón bíla í tvö ár.

Úkraínumenn telja þar með losun vegna skógarelda og elda sem eru kveiktir vegna landbúnaðar auk olíu sem hefur verið brennt í árásum á stórar birgðarstöðvar.

„Rússland hefur breytt náttúruverndarsvæðum okkar í herstöðvar. Rússland gerir allt sem það getur til þess að stytta sjóndeildarhring okkar og ykkar. Vegna stríðsins þurfum við að gera enn meira til þess að sigrast á loftslagsvánni,“ sagði Strilets á COP27-ráðstefnunni í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi.

Hann heldur því einnig fram að endurbygging Úkraínu eigi eftir að kalla á enn frekari losun, allt að 49 milljónir tonna koltvísýrings. Rússar ættu að bera ábyrgð á þeirri losun.

Stjórnvöld í Kænugarði safna upplýsingum í sarpinn um það sem þau telja umhverfisglæpi Rússa, alls um tvö þúsund talsins. Saka þau Rússa um að eyða skógum, losa eiturgufur og skemma vatnsveitur. Hyggjast þau leita réttar síns og krefja Rússa bóta.


Tengdar fréttir

Rússar reyna að innlima losun hernumdra svæða

Tilraunir Rússa til þess að innlima landsvæði sem þeir hafa hernumið í Úkraínu taka á sig ýmsar myndir. Nú þurfa úkraínsk stjórnvöld að verjast því að Rússar reyni að taka ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda á hernumndu svæðunum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×