Erlent

Rússar reyna að innlima losun hernumdra svæða

Kjartan Kjartansson skrifar
Bæði Rússland og Úkraína vilja eigna sér losun frá dísilknúnum skriðdrekkum Rússa á Krímskaga. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Bæði Rússland og Úkraína vilja eigna sér losun frá dísilknúnum skriðdrekkum Rússa á Krímskaga. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/EPA

Tilraunir Rússa til þess að innlima landsvæði sem þeir hafa hernumið í Úkraínu taka á sig ýmsar myndir. Nú þurfa úkraínsk stjórnvöld að verjast því að Rússar reyni að taka ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda á hernumndu svæðunum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 og gerðu slíkt það sama við fjögur héruð Úkraínu í kjölfar málamyndaatkvæðagreiðslu í byrjun þessa mánaðar. Afgerandi meirihluti ríkja heims fordæmdi ólöglega innlimun héraðanna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku.

Washington Post segir að í aðdraganda loftslagsráðstefnu SÞ í Egyptalandi í næsta mánuði geri bæði Úkraína og Rússland tilkall til losunar í innlimuðu héruðunum. Bæði ríki telji það nauðsynlegt til að styrkja mál sitt.

Alex Riabtsjín, aðstoðarorkumálaráðherra Úkraínu, segir málið ekki snúast um loftslagið heldur um landsvæði.

„Rússar reyna að nota allar leiðir til þess að veita ólöglegri innlimun sinni lögmæti,“ segir hann.

Rússar létu losun frá Krímskaga fyrst fylgja með skýrslu sinni til rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar árið 2016. Fulltrúar Úkraínu komu því til leiðar að neðanmálsgrein fylgir gögnum um losun Rússa þar sem vísað er til þriggja ályktana Sameinuðu þjóðanna sem styðja tilkall Úkraínu til Krímskaga. Þeim tókst þó ekki að fá stofnuna til að hafna losunarskýrslum Rússa sem tóku Krímskaga með í reikninginn.

Úkraínumenn hafa allan tímann haldið áfram að að leggja mat á losun frá Krímskaga sem hefur leitt til tvítalningar losunar þaðan. Losunartölurnar eru ekki sundurliðaðar eftir héruðum og því er sagt erfitt að bera saman bókhald ríkjanna tveggja.

Líklegt er talið að loftslagsráðstefnan fresti því að taka á ágreiningnum. Washington Post hefur eftir Marianne Karlsen, formanni innleiðingarnefndar loftslagssamningsins, vísar til þess að engin lausn á átökunum í Úkraínu sé í sjónmáli og bæði ríki hafi sætt sig við frestinn.


Tengdar fréttir

Bölsótaðist út í Vesturlönd

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að þau héruð Úkraínu sem hann innlimaði einhliða og ólöglega í rússneska sambandsríkið í dag tilheyri Rússlandi. Þau hafi tilheyrt rússneska keisaraveldinu og Sovétríkin hafi rekið Þjóðverja þaðan í seinni heimsstyrjöldinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×