Íslenski boltinn

Hjólhestaspyrnumarkið draumur sem rættist

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samira Suleman skoraði síðasta mark ÍA á tímabilinu 2022 og jafnframt það flottasta.
Samira Suleman skoraði síðasta mark ÍA á tímabilinu 2022 og jafnframt það flottasta. vísir/arnar

Samira Suleman, sem er eina konan frá Gana sem er með UEFA B þjálfararéttindi, segir að það styttist í annan endann á leikmannaferlinum. Hún skoraði eitt af flottustu mörkum síðasta sumars.

Samira hefur leikið hér á landi síðan 2015. Hún gekk í raðir ÍA um mitt síðasta tímabil og skoraði tíu mörk í níu leikjum með liðinu. Samira efast þó um að hún spili mikið lengur.

„Ég hef ekki hugsað mikið út í þetta en það er örugglega ekki það langt þangað til ég hætti,“ sagði Samira við Vísi.

Í 5-0 sigri ÍA á KH í Akraneshöllinni 24. september skoraði Samira eitt af mörkum sumarsins 2022, með hjólhestaspyrnu.

„Þetta mark var ótrúlegt, stórkostlegt. Ég elska það. Ég hef reynt þetta nokkrum sinnum, líka á æfingum, dottið og meitt mig,“ sagði Samira.

„En þú átt aldrei að gefast upp svo ég hélt áfram að reyna. Ég reyndi þetta í þessum leik en það gekk ekki. Svo reyndi ég aftur og loksins skoraði ég svona mark og þetta var draumur sem rættist. Samherjar mínir í gegnum tíðina vita að ég vildi alltaf skora svona mark. Ég hef stundum sagt að þegar ég skora svona mark muni ég hætta. En loksins tókst það og þetta var frábær tilfinning.“

Samira hefur alls leikið 113 deildar- og bikarleiki á Íslandi og skorað í þeim 67 mörk. Hún hefur einnig leikið með ganverska landsliðinu, meðal annars í Afríkukeppninni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.