Erlent

Lést á flug­vellinum þar sem hann dvaldi í á­tján ár

Árni Sæberg skrifar
Mehran Karimi Nasseri fékk landvistarleyfi í Frakklandi árið 1999.
Mehran Karimi Nasseri fékk landvistarleyfi í Frakklandi árið 1999. Christophe Calais/Getty Images

Mehran Karimi Nasseri, Íraninn sem dvaldi á Charles De Gaulle flugvellinum í París í átján ár er látinn. Hann lést á flugvellinum eftir að hafa snúið aftur þangað fyrir skömmu. Saga Nasseris varð kveikjan að kvikmyndinni vinsælu The Terminal með Tom Hanks í aðalhlutverki.

Nasseri var strandaglópur á flugvellinum í rúmlega átján ár eftir að hafa verið synjað um landvistarleyfi vegna skorts á skilríkjum árið 1988. Árið 1999 fékk hann stöðu flóttamanns og landvistarleyfi í Frakklandi. Samt sem áður bjó hann áfram í flugstöðinni um nokkurt skeið.

Hann hafði farið frá Íran í ferðalag vítt og breitt um Evrópu í leit að móður sinni en fékk hvergi að vera.

Árið 2004 gerði Steven Spielberg kvikmyndina The Terminal sem var byggð að stórum hluta á sögu Nasseris. Þar fer Tom Hanks með hlutverk manns sem situr fastur á JFK-flugvellinum í New York eftir að vegabréf hans rann úr gildi.

Speilberg keypti sögu Nasseris af honum fyrir dágóðar fjárhæðir, allavega fyrir mann sem hafði setið fastur á flugvelli á nokkurrar atvinnu. Árið 2006 nýtti hann þá fjármuni til þess að flytja loksins af flugvellinum, sem hafði verið heimili hans í rúm átján ár. 

AFP-fréttaveitan hefur eftir starfsmanni flugvallarins að Nasseri hafi snúið aftur á flugvöllinn fyrir nokkrum vikum eftir að hafa orðið blankur á ný. Á líki hans hafi samt sem áður fundist nokkur þúsund evrur.

Nasseri var fæddur árið 1945 og því 77 ára að aldri þegar hann lést af náttúrulegum orsökum á flugvellinum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.