Erlent

Hvetja Rússa sem eru í felum í Kherson til að gefast upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn að störfum í Kherson í vikunni.
Úkraínskir hermenn að störfum í Kherson í vikunni. EPA/STANISLAV KOZLIUK

Úkraínumenn segja Kherson-borg hafa verið frelsaða úr höndum Rússa. Borgin var eina héraðshöfuðborgin sem Rússar hafa hertekið frá því innrás þeirra í Úkraínu hófst í febrúar en forsvarsmenn rússneska hersins tilkynntu á dögunum að til stæði að hörfa þaðan.

Undanhaldinu virðist svo hafa lokið í nótt.

Rússar segjast hafa flutt um þrjátíu þúsund hermenn og fimm þúsund farartæki af vesturbakkanum. Óljóst er hvort að Úkraínumenn hafi náð að blóðga Rússa á undanhaldinu en ljóst er að Rússar hörfuðu hraðar en búist var við.

Sjá einnig: Pútín firrir sig ábyrgð á undanhaldinu

Útlit er fyrir að Rússar hafi komist tiltölulega óskaddaðir frá vesturbakkanum þar sem þeir hafi hörfað hraðar en Úkraínumenn hafi sótt fram. Ef satt reynist, gæti það verið vegna þess að forsvarsmenn úkraínska hersins óttuðust að Rússar væru að reyna að leiða Úkraínumenn í gildru.

Sjá einnig: „Óvinurinn færir okkur ekki gjafir eða gerir okkur greiða“

Rússar eru sagðir mögulega enn með fótfestu á einum stað á vesturbakkanum en það er við Kakhovka stífluna en hún er í raun eini staðurinn þar sem enn er hægt að keyra yfir ána.

Myndbönd af íbúum héraðsins og Kherson-borgar að taka á móti úkraínskum hermönnum hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum í dag.

Ráðamenn í Úkraínu hafa varað við því að Rússari hafi komið jarðsprengjum og gildrum fyrir í Kherson. Í dag hafa þeir svo sagt að Rússar ætli líklega að gera árásir á borgina frá austurbakka Dnipro.

Í frétt New York Times segir að þeir fáu íbúar sem hafi búið í Kherson eftir hernám Rússa hafi upplifað erfiða tíma. Hve erfiða muni koma betur í jós á næstu tímum en þegar hersveitir Rússa hafa hörfað frá öðrum svæðum í Úkraínu hafa grimmileg ódæði litið dagsins ljós.

Íbúar í Kherson hafa sagt frá því að fólk hafi horfið, verið pyntað og myrt og að börnum hafi verið rænt til Rússlands. Þeir hafa tekið úkraínskum hermönnum vel í dag.

Sendu út uppgjafarleiðbeiningar

Úkraínski herinn birti í dag færslur á samfélagsmiðlum þar sem rússneskir hermenn sem enn eru í Kherson voru hvattir til þess að gefast upp. Þeir hafi verið yfirgefnir og yfirmenn þeirra hafi sagt þeim að klæða sig eins og óbreyttir borgarar og reyna að flýja.

„Augljóslega getið þið það ekki,“ segir í færslunum. Þar segir að allar undankomuleiðir séu lokaðar og að ef þeir vilji ekki deyja, verði þeir að gefast upp.

Þá er þeim hermönnum sem vilja gefast upp ráðlagt að hringja í sérstök símanúmer að senda skilaboð á samfélagsmiðlum. Geti þeir það ekki fylgja færslunum leiðbeiningar um hvernig best sé að gefast upp.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×