Íslenski boltinn

Einar Karl hefur rift samningi sínum við Stjörnuna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Einar Karl Ingvarsson í leik með Stjörnunni á Hlíðarenda.
Einar Karl Ingvarsson í leik með Stjörnunni á Hlíðarenda. Vísir/Diego

Miðjumaðurinn Einar Karl Ingvarsson hefur rift samningi sínum við lið Stjörnunnar í Bestu deild karla í fótbolta. Einar Karl nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum sem átti að renna út eftir tímabilið 2023.

Fótbolti.net greinir frá en ekki kemur fram hvort Einar Karl sé að íhuga að endursemja í Garðabænum eða ætli sér að fara frítt til annars liðs. Það er þó talið ólíklegt að Einar Karl verði áfram hjá Stjörnunni en fyrr í sumar fór umræða af stað að leikmaðurinn væri óánægður í Garðabænum.

Einar Karl samdi í Garðabænum á síðasta ári og var því að ljúka sínu öðru tímabili með liðinu. Þar áður var hann á mála hjá Val, þar sem hann varð meðal annars Íslandsmeistari tvívegis.

Alls kom hinn 29 ára gamli Einar Karl við sögu í 23 af 27 deildarleikjum Stjörnunnar í ár. Liðið endaði í 5. sæti með 37 stig.

Einar Karl er uppalinn hjá FH í Hafnafirði en hefur einnig spilað með Grindavík og Fjölni. Það er spurning hvort hann horfi heim í Hafnafjörð en reikna má með miklum breytingum á leikmannahóp FH sem rétt slapp við fall í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×