Enski boltinn

Dag­ný skoraði en Skytturnar höfðu betur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný og stöllur fagna marki kvöldsins.
Dagný og stöllur fagna marki kvöldsins. Alex Davidson/Getty Images

Dagný Brynjarsdóttir getur ekki hætt að skora um þessar mundir en því miður dugði það ekki til sigurs í kvöld þar sem West Ham United mátti þola tap gegn Arsenal í ensku úrvalsdeild kvenna í fótbolta.

Fyrirliðinn kom Hömrunum yfir þegar 35 mínútur voru liðnar af nágrannaslag kvöldsins. Dagný var fljót að hugsa eftir slæma sendingu til baka á markvörð Arsenal og potaði boltanum í netið af stuttu færi.

Því miður fyrir gestina þá jafnaði Jordan Nobbs metin fyrir Arsenal áður en fyrri hálfleik var lokið og staðan 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Stina Blackstenius kom svo Arsenal yfir snemma í síðari hálfleik áður en Frida Leonhardsen-Maanum gerði svo gott sem út um leikinn á 70. mínútu. Staðan orðin 3-1 Skyttunum í vil og reyndust það lokatölur leiksins.

Arsenal er því áfram með fullt hús stiga eftir fimm leiki líkt og Manchester United. West Ham er í 7. sæti með 9 stig að loknum sex leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×