Enski boltinn

Man United á­fram með fullt hús stiga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manchester United fór létt með Everton.
Manchester United fór létt með Everton. Cameron Smith/Getty Images

Manchester United er enn með fullt hús stiga í ensku úrvalsdeild kvenna í fótbolta, Það sem meira er þá á liðið enn eftir að fá á sig mark. Arsenal getur jafnað Man Utd að stigum með sigri á Dagnýju Brynjarsdóttur og stöllum hennar í West Ham United síðar í dag.

Man United heimsótti Everton í Bítlaborgina og fór með öruggan 3-0 sigur af hólmi. Nikita Parris kom gestunum yfir í fyrri hálfleik og Leah Galton tvöfaldaði forystuna þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Haley Ladd gerði svo endanlega út um leikinn með þriðja marki gestanna á 68. mínútu.

Englandsmeistarar Chelsea lögðu Aston Villa 3-1 er liðin mættust í Lundúnum. Lauren James kom meisturunum yfir en Rachel Daly jafnaði metin fyrir gestina og staðan 1-1 í hálfleik. James var aftur á ferðinni í upphafi síðari hálfleiks og Sam Kerr gulltryggði sigurinn þegar rúm klukkustund var liðin.

Þá vann Manchester City 2-1 sigur á Liverpool, Tottenham Hotspur heimsótti Brighton & Hove Albion og vann ótrúlegan 8-0 sigur. Þá kom Reading til baka og vann 2-1 sigur gegn Leicester City.

Man Utd er á toppi deildarinnar með 15 stig að loknum fimm leikjum. Chelsea er með jafn mörg stig en hefur leikið leik meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×