Erlent

Telja Kín­verja hafa sett upp ó­lög­legar lög­­reglu­­stöðvar í Hollandi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá mótmælum við sendiráð Kínverja í Hollandi fyrr á árinu.
Frá mótmælum við sendiráð Kínverja í Hollandi fyrr á árinu. Getty/Pierre Crom

Utanríkisráðuneytið í Hollandi segist vera að rannsaka það hvort Kínverjar hafi sett upp ólöglegar lögreglustöðvar í Rotterdam og Amsterdam. Hollenskir miðlar hafa fjallað um málið síðustu daga og telja kínverska ríkið bera ábyrgð á stöðvunum. 

Greint var frá málinu á þriðjudaginn en talið er að Kínverjar hafi byggt þjónustumiðstöðvar í Hollandi sem þeir nota sem eins konar lögreglustöðvar. Kínverjar segja miðstöðvarnar vera svo kínverskir ríkisborgarar í Hollandi geti sótt um endurnýjun á ökuskírteini, skráð sig í sambúð og fleira. 

Hollenskir fjölmiðlar telja að miðstöðvarnar séu þó notaðar til þess að eltast við andófsmenn kínverska Kommúnistaflokksins sem búa í Hollandi. 

Fjölmiðlar ræddu við einn andófsmann, Wang Jingyu, sem hafði flutt frá Kína til Hollands. Hann gagnrýndi kínversku ríkisstjórnina á samfélagsmiðlum sínum. Stuttu seinna fékk hann símtal frá manni sem sagðist vinna á „kínversku lögreglustöðinni í Rotterdam“. Sá ráðlagði honum að snúa aftur til Kína til að leysa vandamál sín. Einnig ætti hann að hugsa til foreldra sinna áður en hann gagnrýndi stjórnina.

Utanríkisráðuneyti Kína harðneitar að um ræddar þjónustumiðstöðvar séu notaðar í annað en að þjónusta kínverska ríkisborgara. Allt tal um lögregluaðgerðir sé tóm þvæla.

Í skriflegu svari til fréttastofu CNN staðfestir hollenska utanríkisráðuneytið að málið sé til skoðunar þar. Ráðuneytið ætlar að skoða málið nánar áður en ráðist verður í aðgerðir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×