Erlent

Herða bann við „hinsegin áróðri“ í Rússlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Stjórnarandstæðingar veifa fána hinsegin fólks á mótmælum í Moskvu fyrir tveimur árum.
Stjórnarandstæðingar veifa fána hinsegin fólks á mótmælum í Moskvu fyrir tveimur árum. Vísir/EPA

Rússneska þingið samþykkti að herða núgildandi bann við svonefndum „hinsegin áróðri“ þannig að  það nái ekki lengur aðeins til barna og ungmenna heldur fólks af öllum aldri. Þannig verður nú hægt að sekta vegna viðburða, kvikmynda eða vefsíða sem eru talnar auglýsa samkynhneigð.

Þýska fréttastofan Deutsche Welle segir að þingmenn Dúmunnar hafi samþykkt frumvarpið einróma í dag. Formlega er frumvarpið kallað bann við áróðri fyrir óhefðbundnum kynferðislegum tengslum og höfnun á fjölskyldugildum.

Upphaflega bannið var lagt á árið 2013 og gerði það ólöglegt að kynna börn og ungmenni fyrir samkynhneigð. Rússnesk stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd fyrir bannið á alþjóðavísu. Með þeim breytingum sem voru samþykktar á lögunum í dag verður „áróðurinn“ bannaður, hvort sem hann beinist að börnum eða fullorðnum.

Sumir þingmenn og bandamenn Vladímírs Pútíns forseta tengdu bannið við stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu og að það skipti þar sköpum.

„Stríðið er ekki aðeins á vígvellinum. Það er líka í snjallsímum barnanna okkar, í teiknimyndum og í kvikmyndum. Kjarni áhrifa óvina okkar felst í áróðri fyrir endaþarmsmökum,“ sagði Konstantín Malofejev, eigandi íhaldssamra fjölmiðla, við Dúmuna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×