Erlent

Ye vísað á dyr í höfuðstöðvum Skechers

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ye hefur farið mikinn síðustu misseri, bæði gagnvart barnsmóður sinni og hinum ýmsu hópum.
Ye hefur farið mikinn síðustu misseri, bæði gagnvart barnsmóður sinni og hinum ýmsu hópum. Vísir/EPA

Tónlistarmanninum og fatahönnuðinum Ye, áður Kanye West, var vísað á dyr þegar hann mætti óboðinn í höfuðstöðvar Skechers í Los Angeles í gær. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að Ye og föruneyti hans hafi verið fylgt út eftir stutt samtal.

Forsvarsmenn stórfyrirtækisins Adidas tilkynntu í fyrradag að þeir hefðu ákveðið að slíta öllum tengslum við tónlistarmanninn vegna hatursáróðurs hans gegn gyðingum. 

Í yfirlýsingunni frá Skechers var sömuleiðis ítrekað að það fyrirtæki hefði engar áætlanir uppi um að vinna með Ye en hann og fylgdarmenn hans hefðu aukinheldur staðið að óheimilum upptökum í höfuðstöðvunum.

Forsvarsmenn Skechers sögðust fordæma nýfallin ummæli Ye um gyðinga og að fyrirtækið hefði ekkert umburðarlyndi gagnvart gyðingahatri eða annarri hatursorðræðu.

Listamaðurinn, sem hefur meðal annars gert úr því skóna að gyðingar níðist á svörtu fólki, hefur í kjölfar ummæla sinna orðið af samningum við Gap og hátískuhúsið Balenciaga. Þá er umboðsskrifstofan CAA sögð hafa skorið á tengsl við kappann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×