Íslenski boltinn

Aðeins eitt lið hefur ekki náð að skora hjá Fram í Úlfarsárdalnum og það tvisvar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framarar fagna einu marka sinna á móti FH um helgina.
Framarar fagna einu marka sinna á móti FH um helgina. Vísir/Hulda Margrét

Framarar héldu marki sínu hreinu í 3-0 sigri á FH í neðri hluta úrslitakeppninnar um helgina og það var langþráð hreint mark hjá Grafarholtsliðinu.

Framliðið hafði ekki náð að halda marki sínu hreinu síðan 25. júlí síðastliðinn eða í 90 daga. Þá vann liðið 4-0 sigur á ÍA upp á Akranesi.

Síðan Framarar fluttu sig úr Safamýrinni og yfir á nýja heimavöll sinn í Úlfarsárdalnum hafa þeir skorað mikið af mörkum en líka fengið mörg á sig.

Þessi leikur um helgina á móti FH var aðeins í annað skipti í sumar sem Framarar halda hreinu á nýja velli sínum og í fyrsta sinn síðan 11. júlí. Það voru liðnir 104 dagar síðan.

Einu heimaleikirnir sem Fram hélt hreinu í eiga það sameiginlegt að mótherjinn var FH. FH-liðið skoraði ekki heldur á vellinum í fyrri leik liðanna í deildarkeppninni.

Framliðið hefur fengið á sig 26 mörk í hinum 9 heimaleikjum sínum í Úlfarsárdalnum og tvö mörk eða fleiri í átta þeirra.

Alls hafa verið skoruð 52 mörk í ellefu heimaleikjum Fram í Úlfarsárdal eða 4,7 mörk að meðaltali í leik.

  • Mörk mótherja Fram á nýja velli þeirra í Úlfarsárdalnum:
  • Haldið hreinu

  • 1-0 sigur á FH í júlí
  • 3-0 sigur á FH í október
  • 1 mark fengið á sig

  • 4-1 sigur á Leikni í ágúst
  • 2 mörk fengin á sig
  • 2-2 jafntefli við Stjörnuna í ágúst
  • 0-2 tap fyrir Breiðabliki í ágúst
  • 2-2 jafntefli við KA í ágúst
  • 3-2 sigur á Leikni í október
  • 3 mörk fengin á sig
  • 3-3 jafntefli við ÍBV í júní
  • 3-3 jafntefli við Víking í ágúst
  • 1-3 tap fyrir ÍBV í október
  • 8 mörk fengin á sig
  • 4-8 tap á móti Keflavík í september



Fleiri fréttir

Sjá meira


×