Erlent

Biðst af­sökunar á að kalla eftir að úkraínskum börnum yrði drekkt

Kjartan Kjartansson skrifar
Á RT-sjónvarpsstöðinni er rekinn áróður fyrir stríði Rússa í Úkraínu. Ummæli þáttastjórnanda þar um að drekkja börnum í síðustu viku þóttu fara yfir strikið, jafnvel hjá rússneskum yfirvöldum.
Á RT-sjónvarpsstöðinni er rekinn áróður fyrir stríði Rússa í Úkraínu. Ummæli þáttastjórnanda þar um að drekkja börnum í síðustu viku þóttu fara yfir strikið, jafnvel hjá rússneskum yfirvöldum. Vísir/Getty

Sjónvarpsþáttastjórnandi í Rússlandi baðst afsökunar á því að hafa kallað eftir því að úkraínskum börnum yrði drekkt í dag. Ummæli hans eru sögð til sakamálarannsóknar.

Anton Krasovskíj sagði að úkraínsk börn sem litu á Rússa sem innrásarlið á tímum Sovétríkjanna hefðu átt að vera tekin og varpað út í straumþunga á til að drukkna í þætti sínum á sjónvarpsstöðinni RT sem rússnesk stjórnvöld styðja í síðustu viku.

Úkraínsk stjórnvöld kölluðu í kjölfarið eftir því að RT yrði bannað á heimsvísu fyrir að æsa til þjóðarmorðs, að því er segir í frétt Reuters. Margarita Simonjan, aðalritstjóri RT, segist hafa sett Krasovskíj í bann vegna „ógeðfelldra“ ummæla hans og fullyrðir að enginn deili skoðun hans á ritstjórninni.

Krasovskíj sjálfur segist skammast sín fyrir ummælin. Hann er á meðal fjölda Rússa sem Evrópusambandið beitir refsiaðgerðum vegna innrásarinnar í Úkraínu.

„Þetta gerist, maður er í beinni útsendingu, maður fer fram úr sér og maður nær ekki að stoppa. Ég bið hvern þann sem kann að hafa verið sleginn yfir þessu afsökunar,“ sagði Krasovskíj í samfélagsmiðlafærslu.

Svonefnd rannsóknarnefnd Rússlands sem rannsakar alvarlega glæpi segir að hún hafi verið beðin um að rannsaka ummæli sjónvarpsmannsins.

Í þættinum í síðustu viku talaði Krasovskíj einnig um að smala börnum inn í kofa og brenna þá og gerði grín að nauðgunum á úkraínskum konum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×