Erlent

Diplómatafrú viðurkenndi að hafa ekið á breskan pilt

Kjartan Kjartansson skrifar
Foreldrar Harry Dunn ganga úr réttarsal í London í síðasta mánuði. Frá vinstri: faðir hans Tim Dunn, stjúpmóðir Tracey Dunn, móðir Charlotte Charles og stjúpfaðir Bruce Charles.
Foreldrar Harry Dunn ganga úr réttarsal í London í síðasta mánuði. Frá vinstri: faðir hans Tim Dunn, stjúpmóðir Tracey Dunn, móðir Charlotte Charles og stjúpfaðir Bruce Charles. AP/James Manning/PA

Eiginkona bandarísks diplómata viðurkenndi að hún hefði orðið táningspilt að bana með því að aka bíl sínum ógætilega fyrir breskum dómstól í gær. Málið olli milliríkjadeilu á milli bandarískra og breskra stjórnvalda.

Anne Sacoolas játaði að hafa orðið Harry Dunn, nítján ára gömlum pilti, að bana fyrir utan bandaríska herstöð í Northampton-skíri í ágúst árið 2019. Hún ók á röngum vegarhelmingi um 350 metra spotta og keyrði á Dunn sem kom á móti henni á mótorhjólinu sínu. Vinstri umferð er í Bretlandi en hægri í Bandaríkjunum.

Bandarísk stjórnvöld sögðu Sacoolas njóta friðhelgi erlendra erindreka og yfirgaf hún Bretland nítján dögum eftir slysið. Málið olli mikilli hneykslan í Bretlandi og kröfðust breskir stjórnmálamenn þess að Sacoolas yrði dregin fyrir þarlenda dómstóla. Bandarísk stjórnvöld höfnuðu framsalskröfum þeirra.

Saksóknarar ákærðu Sacoolas fyrir að valda dauða Dunn með hættulegum akstri en samþykktu á endanum að taka játningu hennar fyrir vægara brot um að valda dauða með ógætilegum akstri. Saksóknarar tóku tillit til þess að Sacoolas væri erlendur ríkisborgari sem væri óvanur að aka á breskum vegum. 

Allt að fimm ára fangelsi liggur við brotinu sem Sacoolas játaði. Breska ríkisútvarpið BBC segir að oft sé fólk dæmt til samfélagsþjónustu eða í skilorðsbundið fangelsi.

Dómarinn í málinu sagði að ekki væri hægt að þvinga Sacoolas til að snúa aftur til Bretlands og afplána refsingu sína en að það yrði mikilvæg vísbending um að hún sæi sannarlega eftir gjörðum sínum. Refsing hennar verður ekki ákvörðuð fyrr en í næsta mánuði.

Tim Dunn, faðir Harry, hvatti Sacoolas til þess að koma til Bretlands og vera viðstödd dómsuppkvaðninguna. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×