Erlent

Töpuðu máli um friðhelgi konu sem ók á son þeirra

Samúel Karl Ólason skrifar
Charlotte Charles og Tim Dunn, foreldrar Harry Dunn.
Charlotte Charles og Tim Dunn, foreldrar Harry Dunn. Getty/Jacob King

Charlotte Charles og Timm Dunn, foreldrar hins heitna Harry Dunn, hafa tapað dómsmáli þar sem þau reyndu að fá friðhelgi bandarískrar konu sem ók á son þeirra fellda niður. Til þess höfðuðu þau mál gegn utanríkisráðuneyti Bretlands og sögðu ráðuneytið hafa staðið í vegi lögreglunnar vegna dauða sonar þeirra.

Hin bandaríska Anne Sacoolas er talin hafa ekið á röngum vegarhelmingi þegar hún ók á Harry Dunn, 19 ára gamlan pilt, sem var á bifhjóli í ágúst í fyrra. Dunn lét lífið í árekstrinum sem átti sér stað nærri herstöð í Northamptonshire þar sem eiginmaður Sacoolas var erindreki.

Hún fór til Bandaríkjanna nokkrum vikum eftir atvikið þegar yfirvöld í Bandaríkjunum sögðu hana njóta friðhelgi erindreka. Hún var þó ákærð og kölluðu Bretar eftir því að hún yrði framseld til Bretlands en því var hafnað.

Lögmaður hjónanna sagði meðal annars fyrir dómi að Sacoolas hafi ekki haft neinum opinberum skyldum að gegna í Bretlandi og því hefði hún ekki átt rétt á friðhelgi. Dómari var þó ósammála því.

Samkvæmt Sky News sagði dómarinn bæði að Sacoolas hafi notið friðhelgi og að utanríkisráðuneytið hefði ekki hindrað störf lögreglu.

Í sumar komust bresk og bandarísk stjórnvöld að samkomulagi um að loka smugu í reglum um friðhelgi erindreka sem gerði Saccolas kleift að krefjast friðhelgi.

Sky hefur eftir foreldrum Harry Dunn að þau ætli ekki að láta af tilraunum sínum til að svipta Sacoolas friðhelgi. Þessi nýjasti úrskurður myndi ekki stöðva það.

„Ég lofaði stráknum mínum að ég myndi ná fram réttlæti og það er nákvæmlega það sem við við munum gera. Engin mun standa í vegi okkar,“ sagði Charlotte Charles.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×