Erlent

Röð drónaárása í Kænugarði í morgun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla að störfum í kjölfar árásanna 10. október síðastliðinn.
Lögregla að störfum í kjölfar árásanna 10. október síðastliðinn. epa/Oleg Petrasyuk

Loftvarnarflautur hljómuðu í Kænugarði í morgun og í kjölfarið heyrðist röð sprenginga sem ráðamenn segja hafa verið af völdum íranskra svokallaðra „kamikaze“ dróna, sem geta hangið í loftinu yfir skotmarki sínu í nokkurn tíma áður en þeir þeytast til jarðar og springa.

Ef marka má fregnir morgunsins má ætla að nokkrir slíkir drónar hafi verið notaðir í árásum Rússa á höfuðborgina snemma í morgun.

Árásirnar hafa verið staðfestar af skrifstofu Vólódómírs Selenskís Úkraínuforseta og af borgarstjóranum Vitaliy Klitschko. Að sögn Klitschko urðu nokkrar skemmdir á íbúðabyggingum í Shevchenkiv og þá sprakk einn sprengja við aðallestarstöðina í borginni, þar sem fólk leitaði skjóls í lestargöngunum.

Engar fregnir hafa borist af fórnarlömbum enn sem komið er.

Fregnir hafa einnig borist af árásum í Sumy og Dnipropetrovsk. Skotmörkin virðast hafa verið orkuinnviðir.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti sagði á dögunum að Rússar hefðu grandað 22 af 29 skotmörkum í árásum sínum 10. október síðastliðinn og þau sjö sem eftir væru yrðu kláruð á næstunni. Þá sagði hann Rússa nú hafa í hyggju að einbeita sér að öðru og að engar stórfelldar árásir væru í bígerð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×