Enski boltinn

Leikurinn tafðist þar sem saga þurfti annað markið niður í rétta stærð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dómaratríó leiksins hafði í nægu að snúast áður en flautað var til leiks í Hull á sunnudag.
Dómaratríó leiksins hafði í nægu að snúast áður en flautað var til leiks í Hull á sunnudag. Richard Sellers/Getty Images

Uppi varð fótur og fit á MKM vellinum í Hull fyrir leik heimamanna gegn Birmingham City í ensku B-deildinni í fótbolta í gær, sunnudag. Ástæðan var sú að mörk vallarins voru mishá og því tafðist leikurinn þar sem vallarstarfsmenn þurftu að saga annað markið niður í rétta stærð.

Leikurinn átti að hefjast klukkan 15.00 á sunnudag en tafðist um 20 mínútur þar sem annað mark vallarins var einfaldlega hærra en hitt.

Þarna voru góð ráð dýr og rifu starfsmenn vallarins upp rafmagnssög og hófu að saga markið sem var tveimur tommum (5,08 sentímetrum) of hátt. Einnig þurfti að endurstilla Hawkeye-marklínutæknina vegna breytinganna á markinu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist í ensku B-deildinni á leiktíðinni en í leik Wigan Athletic og Cardiff City nýverið var annað markið hærra en hitt. Þá var talið að það tæki tvo til þrjá tíma að skipta um mark og því var ákveðið að spila leikinn þar sem eitt marka Cardiff í 3-1 útisigri fór af slánni og inn. 

Hefði markið verið í réttri stærð hefði það skot eflaust farið í slá og út. Engin slík dramatík átti sér stað í Hull þar sem gestirnir frá Birmingham unnu 2-0 sigur þökk sé mörkum Troy Deeney og Juninho Bacuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×