Enski boltinn

Guar­diola virki­­lega ó­­sáttur með markið sem var dæmt af: „Þetta er Anfi­eld“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep var ekki sáttur.
Pep var ekki sáttur. EPA-EFE/PETER POWELL

Pep Guardiola var virkilega ósáttur með markið sem var dæmt af liði hans í 1-0 tapi Manchester City gegn Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni. Phil Foden skoraði snemma í síðari hálfleik en markið var dæmt af. Mohamed Salah skoraði síðar í leiknum það sem reyndist sigurmarkið.

Pep ræddi við fjölmiðla eftir leikinn og ljóst var að hann var ekki ánægður með frammistöðu Anthony Taylor dómara í dag. Hann hrósaði þó liði sínu fyrir spilamennsku þess í leiknum.

„Hvernig við spiluðum, frammistaðan í dag, hugrekkið sem við sýndum: Það var frábært. Eins og svo oft áður þá enda hlutirnir svona hér. Þeir öskra og við þurfum að öskra meira, þeir hlaupa og við þurfum að hlaupa meira. Annars er það ómögulegt en okkur tókst það. Á endanum er þetta fótbolti,“ sagði Spánverjinn að leik loknum.

Um markið sem dæmt var af

„Þetta er Anfield. Dómarinn ræddi við mig og aðstoðarmenn mína fyrir leik og sagði að hann myndi ekki dæma nema það væri augljóst brot. Hann lét leikinn alltaf halda áfram nema þegar við skoruðum, þá var leiknum ekki leyft að halda áfram,“ sagði Pep en í rauninni var leiknum leyft að halda áfram. Taylor dæmdi svo markið af eftir að sjá það aftur í VAR-sjánni.

„Þegar ég kem hingað þá stendur „Þetta er Anfield.“ Í mörg ár hef ég komið hingað. Við töpuðum vegna þess að við gerðum mistök gegn frábæru liði. En í dag var það alltaf „spilið áfram“ nema þegar við skorum, þá var ekki spilað áfram. Það er sannleikurinn, það er raunveruleikurinn.“

Að lokum var Pep spurður út í smápeningana sem var hent í áttina að honum úr stúkunni.

„Þeir munu standa sig betur næst, þeir hittu mig ekki í dag.“


Tengdar fréttir

Sagði úr­slitin frá­bær og rauða spjaldið lík­lega verð­skuldað

Jürgen Klopp, þjálfari enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, var gríðarlega ánægður eftir 1-0 sigur sinna manna á Englandsmeisturum Manchester City á Anfield í dag. Hann viðurkenndi að rauða spjaldið sem hann hafi fengið undir lok leiks hafi eflaust verið réttur dómur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×