Enski boltinn

Sagði lið sitt hafa átt skilið að vinna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erik ten Hag var nokkuð sáttur en það hlýtur að vera áhyggjuefni hversu fá mörk lærisveinar hans skora um þessar mundir.
Erik ten Hag var nokkuð sáttur en það hlýtur að vera áhyggjuefni hversu fá mörk lærisveinar hans skora um þessar mundir. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, var nokkuð sáttur við frammistöðu sinna manna í dag en sagði að lærisveinar hans hefðu átt að koma boltanum í netið.

Man United gerði markalaust jafntefli við Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Gestirnir byrjuðu betur en í síðari hálfleik tóku leikmenn Man Utd öll völd á vellinum en tókst ekki að brjóta ísinn.

„Frammistaðan var góð, fengum ekki á okkur mark og pressuðum vel. Við stýrðum leiknum vel að mestu og vorum góðir þegar við vorum með boltann, sérstaklega í síðari hálfleik.“

„Þegar við stýrðum leiknum þá hefðum við átt að skora sigurmarkið. Fred og Marcus Rashford eiga að skora,“ sagði Hollendingurinn en Fred brenndi af fyrir nánast opnu marki eftir sendingu frá Rashford sem klúðraði svo sjálfur dauðafæri í uppbótartíma.

„Við hefðum átt og áttum skilið að vinna leikinn. Það er mikið hrós fyrir liðið þar sem við vorum að spila gegn einu af líkamlega sterkasta liði deildarinnar. Þeir [leikmenn Newcastle] voru allir með krampa en héldu samt alltaf áfram,“ sagði Ten Hag að endingu en hans menn höfðu unnið nauman 1-0 sigur í Evrópudeildinni á fimmtudaginn.

Man United er sem stendur í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 16 stig að loknum níu leikjum. Það er nóg framundan en næstu tveir leikir liðsins eru gegn Tottenham Hotspur og Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×