Íslenski boltinn

Nýr snjallbúnaður lætur krakkamótin líta út eins og úrslitaleik í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ung knattspyrnukona fagnar hér marki á einu af krakkamótunum.
Ung knattspyrnukona fagnar hér marki á einu af krakkamótunum. Vísir/Vilhelm

Fyrirtækið OZ Sports ætlar sér að gjörbylta fótboltaútsendingum á Íslandi eftir nýjan samning við Knattspyrnusamband Íslands og Íslenskan Toppfótbolta.

OZ Sports stefnir á uppsetningu á snjallmyndavélum á 28 fótboltavöllum hér á landi og þær verður síðan hægt að nota til að sýna frá öllum leikjum, hvort sem þeir eru í meistaraflokki eða yngri flokkum.

Viðskiptablaðið segir að OZ Sports hafi á síðustu árum unnið að þróun á íþróttavélbúnaði sem inniheldur snjallvænan upptökubúnað sem krefst ekki mannafla eins og tökumanna eða útsendingastjóra.

Þessi útsendingabúnaður verður tekinn í notkun í lok þessa mánaða en hann hefur verið prófaður í samstarfi við Alþjóða knattspyrnusambandið í úrvalsdeild Dóminíska lýðveldisins en þar voru teknir upp tvö hundruð knattspyrnuleikir.

Stöð 2 Sport er rétthafi af leikjum í Bestu deildunum en OZ Sports menn hafa einnig kortlagt þarfir rétthafana eins og viðkomandi félaga við skipulagningu og uppsetningu búnaðarins. Alls verður þessi snjallbúnaður settur upp á 28 völlum hér á landi.

Framtíðarsýn OZ Sports er meðal annars að gera íþróttaviðburði hjá ungum iðkendum hátt undir höfði með útsendingum sem jafnast á við efstu deildir í knattspyrnu sem dæmi.

OZ vinnur að því að gera þessa sýn að veruleika með því að beita nýjum aðferðum í tækni róbóta, gervigreindar, tölvugrafíkur og hugbúnaðartækni sem oftast er notuð við gerð tölvuleikja.

„Við hjá OZ Sports gerum ekki greinarmun á úrvalsdeild eða pollamóti. Það hefur verið okkar köllun að láta meira að segja pollamótin líta út eins og úrslitaleik í Meistaradeildinni,“ segir Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri OZ Sports, í viðtali við Viðskiptablaðið en það má finna meira um það hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×