Enski boltinn

Segir að VAR-dómararnir hafi giskað á það hvort Saka hafi verið réttstæður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bukayo Saka fagnar marki sínu á móti Liverpool um helgina.  Markvörður Liverpool vill fá rangstöðu en svo var ekki í þetta skiptið.
Bukayo Saka fagnar marki sínu á móti Liverpool um helgina.  Markvörður Liverpool vill fá rangstöðu en svo var ekki í þetta skiptið. Getty/Stuart MacFarlane

Fjölmiðlamaðurinn þekkti Richard Keys gerði lítið úr vinnubrögðum myndbandadómaranna í ensku úrvalsdeildinni í leik Arsenal og Liverpool um helgina.

Keys tók fyrir fyrsta mark leiksins sem Gabriel Martinelli skoraði fyrir Arsenal eftir aðeins 58 sekúndna leik.

Það sást í útsendingunni að Varsjáin skoðaði mögulega rangstöðu á Bukayo Saka í uppbyggingu sóknar Arsenal sem endaði á því að Martin Odegaard stakk boltanum inn á Martinelli.

Keys skrifar vikulega bloggfærslu um deildina en hann vinnur sem knattspyrnuspekingur hjá BeIN Sports. Hann heldur því fram í nýjasta pistli sínum að Darren England, sem var yfir VAR í þessum leik, hafi ekki skoðað rangstöðuna almennilega.

„Skoðum aðeins Arsenal en allar ákvarðanirnar féllu með þeim. Saka er rangstæður þegar hann fær boltann í aðdraganda fyrsta marksins. Hann er greinilega rangstæður. Við skulum samt vera örlátir og segja að VAR hafi leyft þessu að fara af því að það munaði svo litlu,“ skrifaði Richard Keys.

„Ég hef alltaf haft þá skoðun að sóknarmenn eigi að njóta vafans og væri ánægður ef að dómararnir í ensku úrvalsdeildinni væru búin að breyta um skoðun. Þeir hafa hins vegar ekki gert það,“ skrifaði Keys.

„Þeir misstu af þessu. Hvernig veit ég það? Af því að við báðum um að fá sönnun fyrir því að Saka hafi verið réttstæður. Við vildum sjá línurnar sem þeir notuðust við til að taka þessa ákvörðun. Þeir gátu ekki látið okkur fá þær. Af hverju? Af því að þeir notuðu þær ekki. Ef þeir skoðuðu þetta þá giskuðu þeir bara,“ skrifaði Keys.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×