Erlent

Evrópu­sam­bandið fram­lengir vernd yfir Úkraínu­mönnum á flótta

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Mikill fjöldi Úkraínumanna hefur komið inn á atvinnumarkað Evrópusambandsins síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst, 
Mikill fjöldi Úkraínumanna hefur komið inn á atvinnumarkað Evrópusambandsins síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst,  Vísir/EPA

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen lýsti fyrr í dag yfir andúð sinni vegna sprenginga Rússa í Úkraínu í morgun. Framkvæmdastjórnin hefur nú búið til gagnagrunn sem gerir þeim sem eru á flótta vegna stríðsins aukinn möguleika á því að finna sér vinnu. Einnig verði vernd yfir Úkraínumönnum á flótta endurnýjuð til ársins 2024.

Verndin sem er nú framlengd þar til í mars 2024 gefur Úkraínumönnum á flótta tækifæri til þess að finna sér vinnu, stunda nám og hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu hjá ríkjum Evrópusambandsins. EU Observer greinir frá.

Búist sé við því að fleiri leiti sér aðstoðar og flýi land eftir árásir morgunsins en Rússar skutu loftskeytum til Úkraínu, þar á meðal höfuðborgarinnar Kænugarðs. Verndin nái til um það bil 4,2 milljóna Úkraínumanna sem séu á flótta innan sambandsins.

Úkraínumenn sem kjósi að snúa heim geti þó haldið flóttamannastöðu sinni ef þau skyldu þurfa að flýja land skyndilega en flytji þau heim hafi þau ekki sömu réttindi og ef þau myndu setjast að í öðru landi innan Evrópusambandsins.

Nýi gagnagrunnur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins mun einnig hjálpa Úkraínumönnum á flótta en gagnagrunnurinn ber heitið „EU Talent Pool.“ Hann mun gera þessum hópi fólks kleift að setja ferilskrá sína inn í gagnagrunn sem nær til 4.000 atvinnuveitenda ásamt opinberra þjónustuaðila innan Evrópusambandsins. Reuters greinir frá þessu.

Einhverjir atvinnuveitendur eigi við mannaflaskort um þessar mundir og geti þetta tól nýst þeim vel en 600 þúsund Úkraínumenn hafa komið inn á atvinnumarkað Evrópusambandsins síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst.


Tengdar fréttir

Tugir særð eða látin eftir sprengingar Rússa í morgun

Vladímír Pútín, forseti Rússlands segir árásir morgunsins hafa verið svar Rússa við árásinni á Kertsj-brúna. Árásinni hafi verið beint að samskipta-, orku- og hernaðarinnviðum Úkraínumanna. 

Pútín og Selenskí saka hvor annan um hryðjuverk á víxl

Sprengingar skóku Kænugarð og fleiri borgir í Úkraínu í morgun þar sem Rússar svöruðu fyrir árásina á Kerch brúna um helgina. Vólódimír Selenskí og Vladimír Putín saka hvor annan um hryðjuverk á víxl en Evrópusambandið hefur fordæmt árásirnar og leiðtogar G7 ríkjanna funda með Selenskí á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×