Íslenski boltinn

Ejub hættur en sonurinn samdi

Sindri Sverrisson skrifar
Ejub Purisevic kom til Stjörnunnar haustið 2019 en hefur látið af störfum hjá félaginu.
Ejub Purisevic kom til Stjörnunnar haustið 2019 en hefur látið af störfum hjá félaginu. @fcstjarnan

Ejub Purisevic, maðurinn sem stýrði Víkingi Ólafsvík í tvígang upp í efstu deild karla í fótbolta, er á lausu eftir að hafa hætt störfum hjá Stjörnunni.

Frá þessu greinir Fótbolti.net en Ejub starfaði við þjálfun yngri flokka hjá Stjörnunni og stýrði hæfileikamótun félagsins, auk þess sem hann var aðstoðarþjálfari karlaliðsins í fyrra.

Ætla má að Ejub haldi áfram í þjálfun og samkvæmt frétt Fótbolta.net hafa þegar nokkur félög sett sig í samband við hann. Hann gat sér afar gott orðspor sem þjálfari Víkings í Ólafsvík sem hann stýrði um langt árabil, og á hann stóran þátt í því að liðið lék í efstu deild árin 2013, 2016 og 2017.

Sonur Ejubs, hinn 16 ára gamli Allan Purisevic, er hins vegar ekki á förum frá Stjörnunni og hefur skrifað undir samning við félagið sem gildir til næstu ára. Hann kom til Stjörnunnar árið 2020 og hefur leikið sjö leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Allan var í liði 3. flokks Stjörnunnar sem endaði einu stigi á eftir HK í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×