Bandaríkin eiga í varnarsamstarfi með Taívan og hefur Joe Biden, forseti, sagt að Bandaríkjamenn myndu koma Taívönum til aðstoðar til tilfelli innrásar. Óljóst er þó hvort það myndi fela í sér beina hernaðaraðstoð eða aðstoð sambærilega þeirri sem Úkraínumenn fá frá Bandaríkjunum. Það er að segja vopn, þjálfun og upplýsingar, meðal annars.
Samkvæmt frétt New York Times hafa starfsmenn varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna greint nýlegar æfingar Kínverja við Taívan. Þeir telja æfingarnar hafa snúist um það að einangra eyríkið ef til átaka kæmi.
Það sýni að Taívanar þyrftu að standa einir um tíma, jafnvel þó Bandaríkjamenn og aðrir bandamenn á svæðinu taki þá ákvörðun að koma eyríkinu til aðstoðar.
Vopn og skotfæri eru þó af skornum skammti þessa dagana vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þá hafa Bandaríkjamenn einnig áhyggjur af mögulegum viðbrögðum Kínverja við umfangsmiklum vopnasendingum til Taívans.
Segja „sameiningu“ óhjákvæmilega
Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinna til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Forsvarsmenn Kommúnistaflokksins hafa heitið því að ná völdum í Taívan, með valdi ef nauðsynlegt sé.
Ráðamenn í Kína hafa heitið því að sameina ríkin og með valdi ef svo þarf. Þeirra á meðal er Xi Jinping, forseti Kína.
Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.
Kínverjar hafa beitt Taívan sífellt meiri þrýstingi á undanförnum árum og hafa verið sakaðir um að reyna að draga máttinn úr verjendum eyjunnar með óhefðbundnum hernaði. Málefni eyríkisins á stóran þátt í versnandi samskiptum Bandaríkjanna og Kína á undanförnum árum.
Taívan hefur staðið frammi fyrir mögulegri innrás frá Kína í áratugi. Undanfarin ár hafa þó orðið mikilvægar breytingar sitthvoru megin við Taívansund. Samhliða því að sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan, hefur geta herafla ríkisins dregist saman. Hernaðargeta Kínverja hefur á sama tíma aukist til muna.