Erlent

Kínverjar hættir í bili en áskilja sér rétt til hernaðaraðgerða

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Taívanir segja heræfingar Kínverja raunverulega undirbúning fyrir innrás.
Taívanir segja heræfingar Kínverja raunverulega undirbúning fyrir innrás. AP/Xinhua/Lin Jian

Stjórnvöld í Kína segja heræfingum við Taívan lokið í bili en herafli landsins sé enn að æfingum og í viðbragðsstöðu. Í yfirlýsingu stjórnvalda segir að eftirlit verði áfram haft með sundinu sem skilur Taívan frá meginlandinu og að herinn sé reiðubúinn til að grípa til aðgerða ef þurfa þykir.

Æfingar Kínverja, þær umfangsmestu sem hafa átt sér stað á svæðinu, fóru fram á sjö svæðum umhverfis Taívan. Ráðamenn í Taívan segja um að ræða undirbúning fyrir innrás.

Nýtt stefnumótunarskjal sem kínverskir miðlar greindu frá í morgun gerði lítið til að grafa undan staðhæfingum Taívana, en í skýrslunni segir að Kínverjar muni gera allt sem þeir geta til að sameina aftur Kína og Taívan með friðsamlegum aðferðum.

Þeir áskilji sér hins vegar rétt til þess að grípa til hernaðaraðgerða ef það tekst ekki.

Skýrslan ber yfirskriftina „Taívanska spurningin og sameining Kína á nýjum tímum“. Í því eru ekki nefnd ákveðin tímamörk fyrirhugaðrar sameiningar, en talað um að um sé að ræða vandamál sem eigi ekki að erfast frá einni kynslóð til annarar.

Í skýrslunni segir að valdbeiting sé úrslitaúrræði en til hennar verði gripið til að koma í veg fyrir aðgerðir af hálfu aðskilnaðarsinna og afskipti utanaðkomandi aðila.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.