Erlent

Truss lofaði að koma Bretlandi „í gegnum storminn“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Britain's Prime Minister Liz Truss makes a speech at the Conservative Party conference at the ICC in Birmingham, England, Wednesday, Oct. 5, 2022. (AP Photo/Kirsty Wigglesworth)
Britain's Prime Minister Liz Truss makes a speech at the Conservative Party conference at the ICC in Birmingham, England, Wednesday, Oct. 5, 2022. (AP Photo/Kirsty Wigglesworth) AP/Kirsty Wigglesworth

Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, reynir nú sitt besta til að fullvissa Breta um að ríkisstjórn hennar standi áfram sterk þrátt fyrir gagnrýni. Í ræðu sinni til Íhaldsmanna í dag sagði Truss að erfiðir dagar væru fram undan en lofaði að „koma Bretlandi í gegnum storminn.“

Stöðva þurfti ræðu forsætisráðherrans á einum tímapunkti eftir að mótmælendur frá Greenpeace kölluðu að henni og héldu á borða sem á stóð: „Hver kaus þetta?“ Í færslu á Twitter greindi hópurinn frá því að þau væru að mótmæla því að Truss hafi „tætt“ loforð í stefnuyfirlýsingum flokksins þegar kemur að umhverfismálum.

Stöðva þurfti ræðuna þegar mótmælendur frá Greenpeace kölluðu að Truss. AP/Kristy Wigglesworth

Ríkisstjórn Truss hefur sætt mikilli gagnrýni síðustu vikur vegna stefnu þeirra í efnahagsmálum en Truss og fjármálaráðherra hennar, Kwasi Kwarteng, tilkynntu á mánudag að þau hefðu ákveðið að falla frá umdeildum tekjuskattslækkunum.

„Ég er staðráðin í því að koma Bretlandi af stað, að koma okkur í gegnum storminn og koma okkur á sterkari grunn sem þjóð,“ sagði Truss í ræðu sinni og bætti við að vissulega myndu einhverjar raskanir fylgja því. Þó allir séu ekki samþykkir muni allir njóta góðs af niðurstöðunni.

Hún sagði þau hafa hlustað á fólkið en athygli vakti að í hálftíma ræðu minntist hún ekkert á hækkun bóta í takt við verðbólgu, sem fjölmargir hafa kallað eftir, en Bretar sjá fram á orkukreppu í vetur með gríðarlega mikilli verðbólgu á næstu mánuðum.

Bæði þingmenn stjórnarandstöðunnar og þingmenn Íhaldsflokksins hafa gagnrýnt Truss harðlega á síðustu dögum en í ræðu sinni í dag sagðist Truss ekki ætla að leyfa stjórnarandstöðunni að halda aftur af þeim. Þá stæði ríkisstjórnin sterk og bað hún þingmenn um að treysta henni fyrir framhaldinu.

Rachel Reeves, skuggafjármálaráðherra Bretlands, sagði í kjölfar ræðunnar að það væri mikilvægast á þessum tímapunkti fyrir ríkisstjórn Truss að endurskoða fjármálaáætlun þeirra þegar þingið kemur saman í næstu viku til að tryggja efnahagslegan stöðugleika.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×