Íslenski boltinn

Ísak Snær mættur til Þrándheims

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ísak Snær hefur verið öflugur í liði Blika í sumar og er líkast til á leið til Rosenborgar í Noregi að tímabilinu loknu.
Ísak Snær hefur verið öflugur í liði Blika í sumar og er líkast til á leið til Rosenborgar í Noregi að tímabilinu loknu. Vísir/Hulda Margrét

Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Breiðabliks, er mættur til Þrándheims í Noregi og mun líklega ganga frá skiptum til Rosenborgar. Hann mun þá ganga til liðs við félagið þegar félagsskiptaglugginn opnar á ný um áramótin.

Norski blaðamaðurinn Stian André de Wahl birtir mynd af Ísaki á flugvellinum í Þrándheimi á samfélagsmiðlinum Twitter. Líklegt þykir að Ísak sé mættur til að ganga undir læknisskoðun og ganga frá kaupum og kjörum við norska liðið.

Ísak Snær hefur verið ítrekað orðaður við liðið frá því um mitt sumar en hann hefur átt frábært tímabil með Breiðabliki eftir skipti hans til Kópavogsliðsins frá ÍA síðasta haust. Hann spilaði með Blikum sem unnu 3-0 sigur á Stjörnunni í gær.

Eftir sigurinn er Breiðablik með átta stiga forskot á toppi deildarinnar þegar aðeins tólf stig eru eftir í pottinum. Ísak Snær hefur átt stóran þátt í góðu gengi Blika í sumar en hann er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar með 13 mörk í 20 leikjum.

Ísak Snær verður annar Íslendingurinn á mála hjá Rosenborg, gangi skiptin í gegn. Kristall Máni Ingason er leikmaður liðsins en hann skipti til Þrándheims frá Víkingi um mitt sumar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.