Erlent

Leiðtogi Téténa sendir fjórtán til sextán ára syni sína til Úkraínu

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Kadyrov er einn helsti stuðningsmaður Rússlandsforseta en hefur þó gagnrýnt frammistöðu rússneskra hersveita undanfarið. 
Kadyrov er einn helsti stuðningsmaður Rússlandsforseta en hefur þó gagnrýnt frammistöðu rússneskra hersveita undanfarið.  AP/Mikhail Metzel

Ramzan Kadyrov, leiðtogi Téténa, hyggst senda þrjá syni sína til Úkraínu til að berjast með rússneskum hersveitum en synir hans eru fjórtán, fimmtán og sextán ára. Hann hefur lýst yfir óánægju með frammistöðu rússneskra hersveita upp á síðkastið og kallað eftir róttækari aðgerðum.

Kadyrov greindi frá því í færslu á Telegram að synir hans hefðu hlotið herþjálfun frá ungum aldri og að nú væri kominn tími til að þeir upplifðu alvöru átök, að því er kemur fram í frétt BBC.

Það er þó þvert á sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Rússland hefur undirritað og miðar að því að börn undir átján ára aldri taki ekki þátt í hernaðarátökum. Þá lítur Alþjóðasakamáladómstóllinn, ICC, á það sem stríðsglæp að börn undir fimmtán ára aldri taki þátt í hernaðarátökum, þó Rússar virði ekki þeirra lögsögu.

Kadyrov er einn helsti stuðningsmaður Vladímír Pútíns Rússlandsforseta og hafa hersveitir Tétena barist í Úkraínu frá því að Rússar réðust þar inn í febrúar. Hann hefur þó gagnrýnt frammistöðu rússneska hersins, sérstaklega í Kharkív og Donetsk, og kallað eftir róttækari aðgerðum, þar á meðal beitingu kjarnorkuvopna.

David Petreaus, fyrrverandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA og fjögurra stjörnu hershöfðingi, sagði í gær að Bandaríkin og bandamenn þeirra innan Atlantshafsbandalagsins myndu grípa til afgerandi aðgerða ef Rússar notuðu kjarnorkuvopn í Úkraínu.

Pútín innlimaði á föstudag fjögur héruð Úkraínu, Luhansk, Donetsk, Saporisjía og Kherson, í rússneska sambandsríkið en í ræðu sinni var hann harðorður í garð Vesturlandanna og hvatti Úkraínumenn til að hætta átökum sínum við Rússa og semja um frið.

Ráðamenn í Úkraínu hafa þó gefið það út að þeir muni ekki láta af árásum sínum gegn hersveitum Rússa.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í ávarpi til þjóðarinnar í gærkvöldi að úkraínskar hersveitir hefðu náð að frelsa svæðin Arkhanhelske og Myrolyubivka í Kherson, að því er kemur fram í frétt Reuters. Áður hafði úkraínskum hersveitum tekist að frelsa bæinn Lyman í Donetsk.

Engin af fjórum héruðum sem Pútín innlimaði fyrir helgi eru alfarið á stjórn Rússa.


Tengdar fréttir

Petreaus segir banda­menn myndu þurrka Rússa út í Úkraínu

David Petreaus, fyrrverandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA og fjögurra stjörnu hershöfðingi, segir að Bandaríkin og bandamenn þeirra innan Atlantshafsbandalagsins myndu grípa til afgerandi aðgerða ef Rússar notuðu kjarnorkuvopn í Úkraínu.

Beitt­u íbúa Izy­um kerf­is­bundn­um pynt­ing­um

Rússneskir hermenn eru sagðir hafa ítrekað pyntað íbúa Izyum í Úkraínu í þá sjö mánuði sem þeir stjórnuðu borginni. Sameinuðu þjóðirnar hafa skráð markvissa beitingu ofbeldis gegn óbreyttum borgurum og að pyntingar hafi verið beitt með kerfisbundnum hætti.

Lyman sýni að innlimunin sé farsi

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að undanhald Rússa frá Lyman sýni að tilraunir Rússa til að innlima úkraínskt landsvæði væri „algjör farsi“. Úkraínumenn eru sagðir hafa elt þær rússnesku hersveitir sem hörfuðu og munu bardagar geisa á ný, austur af Lyman.

Kadyrov kallar eftir herlögum og notkun kjarnorkuvopna

Ramsan Kadyrov, einræðisherra Téténíu, birti í dag langan pistil þar sem hann gagnrýnir leiðtoga rússneska hersins harðlega vegna undanhaldsins frá Lyman í norðanverðu Donetsk-héraði. Meðal annars kallar hann eftir því að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, setji á herlög á landamærasvæði Rússlands við Úkraínu og beiti kjarnorkuvopnum gegn Úkraínumönnum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×