Erlent

Petreaus segir banda­menn myndu þurrka Rússa út í Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Petreaus fór fyrir hermönnum Bandaríkjanna og Nató í Afganistan en lét af því starfi árið 2011 til að taka við CIA.
Petreaus fór fyrir hermönnum Bandaríkjanna og Nató í Afganistan en lét af því starfi árið 2011 til að taka við CIA. epa/S. Sabawoon

David Petreaus, fyrrverandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA og fjögurra stjörnu hershöfðingi, segir að Bandaríkin og bandamenn þeirra innan Atlantshafsbandalagsins myndu grípa til afgerandi aðgerða ef Rússar notuðu kjarnorkuvopn í Úkraínu.

Sagði hann að bandamenn myndu tortíma öllum hersveitum Rússlands í Úkraínu og hergögnum þeirra, auk þess að sökkva Svartahafsflota Rússa.

Í viðtali við ABC News, sem birtist í gær, sagðist Petreaus ekki hafa rætt við Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafa Joe Biden Bandaríkjaforseta, um möguleg viðbrögð Bandaríkjanna við kjarnorkuvopnanotkun Rússa. Hins vegar væri þetta ein möguleg sviðsmynd.

Petreaus benti á að notkun kjarnorkuvopna í Úkraínu væri ekki nóg til þess að virkja ákvæði 5 í sáttamála Nató, sem kveður á um viðbrögð allra aðildarríkjanna vegna árásar á eitt þeirra, þar sem Úkraína væri ekki aðildarríki. 

Hins vegar myndi notkun kjarnorkuvopna ein og sér kalla á viðbrögð. Þá mætti túlka það sem svo að um væri að ræða árás á aðildarríki ef kjarnorkumengnun bærist inn á landsvæði þeirra.

Petreaus sagði bandamenn ekki myndu vilja láta draga sig í stigmagnandi kjarnorkustríð en viðbrögðin yrðu að vera á þann veg að það væri alveg ljóst að notkun kjarnorkuvopna yrði ekki liðin.

Hershöfðinginn fyrrverandi sagðist telja Vladimir Pútín Rússlandsforseta vera kominn í öngstræti á vígvellinum; engar herkvaðningar, innlimanir eða hótanir um notkun kjarnorkuvopna gætu snúið þróun stríðsins honum í hag. Hins vegar þyrfti að taka hótununum alvarlega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×